Dómarinn hafi fallið í gildru

Sigurður Bjartur Hallsson í Kaplakrika í dag.
Sigurður Bjartur Hallsson í Kaplakrika í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

FH tapaði dýrmætum stigum gegn KR á heimavelli sínum Kaplakrika í dag þegar liðin áttust við í 7. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Heimir Guðjónsson þjálfari FH var eðlilega ekki ánægður með niðurstöðu leiksins þegar mbl.is spurði hann út í leikinn:

„Við vorum næstbestir í fyrri hálfleik. Það var miklu meiri ákefð hjá þeim og voru að vinna seinni boltana ásamt því að gera þessi grunnatriði leiksins betur en við. Þeir komast sanngjarnt yfir í leiknum."

Var það samt sanngjarnt?

Eyþór Árnason

„Já ég held það hafi verið sanngjarnt að þeir hafi komist yfir þó þetta hafi aldrei verið vítaspyrna þá voru þeir bara betri í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik sýndum við karaker og það var bara eitt lið inni á vellinum í seinni hálfleik og við getum að minnsta kosti byggt ofan á það."

Þið dóminerið leikinn í síðari hálfleik og það var bara eitt lið inni á vellinum. Hvað þarf til að FH byrji leikina jafn vel og þið endið þá?

„Við höfum spilað 8 leiki í sumar, 7 í deild og einn í bikar. Ég held það séu tveir leikir sem við höfum byrjað sómasamlega. Það var gegn KA fyrir norðan og ÍA upp á skaga. Við unnum báða þá leiki.

Það er erfitt í fótbolta, alveg sama hver þú ert að ætla að byrja leikina alltaf bara í seinni hálfleik og vera tveimur mörkum undir. Við þurfum bara að fara yfir þetta í vikunni og vera tilbúnir kl 19:15 á Hlíðarenda á laugardaginn.

Ef við förum aðeins yfir þennan vítaspyrnudóm. KR skorar úr vítinu og eftir það sækja þeir í sig veðrið og koma inn öðru markinu. Það hlýtur að svíða ekki satt?

Eyþór Árnason

„Mörk breyta leikjum og markið sem KR skoraði gaf þeim sjálfstraust og þeir héldu áfram. Þeir eru með mikið af góðum leikmönnum og ef þú hleypir þeim af stað þá getur þú lent í vandræðum. En þetta var ekki víti mínum huga og Guy Smit skutlaði sér niður í hvert einasta skipti sem hann sló boltann og ég held að dómarinn hafi fallið í gildru þegar Logi skoraði."

Erfiður leikur framundan á laugardag gegn Val. Hvað þarf FH að gera til að ná fram úrslitum gegn Val?

„Byrja leikinn klukkan kortér yfir sjö," sagði Heimir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert