Sumarleg acai-skál með ofurtvisti

Hefur þú prófað að gera „smoothie“ skál?
Hefur þú prófað að gera „smoothie“ skál? mbl.is/Irja Gröndal

Á sumrin kallar líkaminn oft á ferskari og léttari fæðu. Þá koma „smoothie“ skálarnar sterkar inn og fara með bragðlaukana í ljúffengt ferðalag á suðrænar slóðir. 

Acai „smoothie“ skálin er ekki einungis bragðgóð heldur líka næringarrík, en það besta við hana er þó líklega hvað það er fljótlegt að útbúa hana. Þeir sem vilja bæta ofurtvisti við skálina setja kollagen- eða próteinduft út í blönduna.

Skálin er tilvalin sem morgunverður eða sem léttur hádegisverður – svo er um að gera að leyfa hugmyndarfluginu ráða för þegar kemur að því að toppa skálina!

Sumarleg acai „smoothie“ skál 

 • 1 frosinn banani
 • 2 dl frosin ber að eigin vali
 • 1-2 tsk. acai-duft
 • 2 dl sykurlaus möndlumjólk
 • 1 msk. hnetu- eða möndlusmjör
 • 2 msk. kollagen duft eða próteinduft (valfrjálst)
 • Klakar
 • Ferskir ávextir að eigin vali (til að toppa skálina)
 • Granóla, hnetur, fræ eða dökkt súkkulaði (til að toppa skálina)

Aðferð:

 1. Setjið frosinn banana og ber, klaka og möndlumjólk í blandara eða matvinnsluvél og blandið vel saman. Lykillinn að góðri „smoothie“ skál leynist í þykktinni – þess vegna er gott að byrja á því að setja minni vökva og bæta frekar við ef þarf. 
 2. Þegar áferðin og þykktin er orðin góð er acai-dufti, hnetu- eða möndlusmjöri og kollagen- eða próteindufti bætt út í og öllu blandað vel saman aftur. 
 3. Að því loknu er blandan sett í skál og toppuð með því sem hugurinn girnist. Fersk ber og ávextir passa vel með skálinni. Svo er ómissandi að toppa hana með granóla, hnetum, fræjum eða dökku súkkulaði sem gefa skálinni hið fullkomna „kröns“.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka