mbl | sjónvarp

Hagar sér eins og Kröflugos

INNLENT  | 17. mars | 10:14 
„Nú er farið að draga verulega úr þessu, alla vega miðað við hvernig þetta var framan af í nótt,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is um hraunrennslið við Sundhnúkagíga og bætir því við að allar líkur séu á að gosið lognist út af í dag eins og fram hafi komið hjá fleiri fræðimönnum.

„Nú er farið að draga verulega úr þessu, alla vega miðað við hvernig þetta var framan af í nótt,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um hraunrennslið við Sundhnúkagíga og bætir því við að allar líkur séu á að gosið lognist út af í dag eins og fram hafi komið hjá fleiri fræðimönnum.

„Þetta byrjaði svo kröftugt og þá er þetta fljótt að tæma, nú er þrýstingurinn að falla, þetta byggist upp á milli og landið rís, svo gerirðu gat á belginn og þá hrynur þrýstingurinn,“ heldur Ármann áfram og segir kvikuhólfið fljótt að tæmast núna vegna þess hve mikið rennslið hafi verið í byrjun.

Dæmigerður gliðnunarviðburður

„Þetta hafa verið fjögur-fimm hundruð rúmmetrar á sekúndu sem er með því mesta sem menn sjá,“ segir hann.

Hvort hraun ná að Suðurstrandarvegi eða fari yfir hann segir hann fara eftir því hvenær rennslið stöðvist. „Það gæti seytlað upp að honum, það streymir vel þarna til suðurs en sem betur fer minna vestur úr.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/03/17/sudurstrandarvegurinn_er_i_haettu/

Ármann vísar til gagna Veðurstofu Íslands sem sýni að hægt og rólega sé að draga úr innrennsli í hólfið, „en það er ekkert sem gerir ráð fyrir öðru en að [kvikusöfnun] haldi áfram bara um leið og gosið hættir. Um leið og þrýstingurinn fellur lokast gangurinn og þá byrjar ferlið aftur,“ segir hann.

„Þetta er kröftugra en hin gosin og að því leytinu til svipar þessu mikið til þess hvernig Krafla hagaði sér, hún byrjaði með lítið gos og svo urðu gosin alltaf stærri og stærri. Þetta er bara dæmigerður gliðnunarviðburður,“ segir Ármann Höskuldsson.

Loading