Þriðji aðili les Gmail-skilaboð

Þriðji aðili hefur aðgang að skilaboðum notenda á Gmail.
Þriðji aðili hefur aðgang að skilaboðum notenda á Gmail. AFP

Google hefur viðurkennt að þriðji aðili geti lesið skilaboð á milli notenda tölvupóstþjónustu fyrirtækisins, Gmail. Um er að ræða þá sem þróa smáforrit, en þeir sem hafa tengt Gmail-aðgang sinn öðrum smáforritum gætu með því hafa óafvitandi veitt leyfi til þess að skilaboð þeirra séu lesin af þriðja aðila.

Samkvæmt frétt BBC af málinu er þetta algengt og „ljótt leyndarmál“ tækniheimsins. Google hefur gefið í skyn að þetta brjóti ekki í bága við reglur fyrirtækisins. Sérfræðingur í öryggismálum segir það koma á óvart að Google leyfi slíkt.

Gmail er vinsælasta tölvupóstþjónusta heims, en hana nota 1,4 milljarðar notenda. Hægt er að tengja tölvupóstföng við ýmiss konar forrit, svo sem til skipulags ferðalaga eða verðsamanburðar. Þegar fólk tengir aðgang sinn slíkum forritum er það beðið um að gefa því leyfi til þess að lesa, senda, eyða og stjórna tölvupóstinum.

Samkvæmt Wall Street Journal gefur þetta lstarfsmönnum þriðja aðila leyfi til þess að lesa tölvupósta notandans. Venjulega fara slíkir tölvupóstar í gegnum reiknirit, en vefmiðillinn hafði samband við fjölda fyrirtækja þar sem starfsmenn fara í gegnum þúsundir tölvupósta. Fyrirtæki á borð við Edison Software og eDataSource Inc sögðu bæði að starfsmenn þeirra læsu tölvupósta notenda til þess að bæta hugbúnaðinn á einhvern hátt. Talsmenn hvorugs fyrirtækisins sögðust biðja notendur sérstaklega um leyfi, enda kæmi þetta fram í notendaskilmálum.

Þrátt fyrir að það komi fram í notendaskilmálum segja sérfræðingar að hinn almenni borgari geri ekki ráð fyrir því að með því að samþykkja þá gefi þeir leyfi til þess að þriðji aðili lesi skilaboð þeirra, enda geti fólk eytt dögum og vikum í að lesa notendaskilmála.

Google bendir á að notendur Gmail geti athugað öryggi reiknings síns og séð hvaða forrit séu tengd aðgangi þeirra, og afturkallað leyfi þeirra sem þeir vilja ekki deila gögnum með lengur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert