Starfsmenn Google ganga út í mótmælaskyni

Þeir starfsmenn sem ganga út í dag munu skilja miða …
Þeir starfsmenn sem ganga út í dag munu skilja miða eftir á skrifborði sínu með skilaboðunum: „Ég er ekki við vinnu af því að ég geng út ásamt öðrum Google-starfsmönnum og verktökum til að mótmæla kynferðislegu áreiti, ósæmilegri hegðun, skorti á gagnsæi og vinnumenningu sem ekki virkar fyrir alla.“ AFP

Starfsfólk Google víða um heim ætlar að ganga út í mótmælaskyni gegn þeirri meðferð sem konur hljóti hjá fyrirtækinu. Engin fordæmi eru fyrir sambærilegum mótmælum í Silicon Valley, en starfsmennirnir krefjast nú breytinga á því hvernig tekið er á ásökunum um kynferðislega áreitni.

Sundar Pichai, forstjóri Google, hefur sagt starfsfólki að hann styðji rétt þess til að grípa til aðgerða. „Ég skil reiðina og vonbrigðin sem mörg ykkar finna fyrir,“ sagði Pichai í bréfi til starfsmanna.

„Ég finn líka fyrir henni og er staðráðinn í að takast á við vanda sem hefur fengið að viðgangast allt of lengi í samfélaginu ... og já líka hér hjá Google.“

Sundar Pichai forstjóri Google segist deila reiði starfsmanna.
Sundar Pichai forstjóri Google segist deila reiði starfsmanna. AFP

Mikillar reiði hefur gætt hjá starfsmönnum eftir að í ljós kom að Andy Rubin, einn af framkvæmdastjórum fyrirtækisins, fékk 90 milljóna dollara starfslokagreiðslu þrátt fyrir að Google teldi ásakanir í hans garð um kynferðislega áreitni „trúanlegar“. Rubin, sem er þekktur sem höfundur Android-stýrikerfisins, neitar ásökununum.

Á þriðjudag var öðrum framkvæmdastjóra af rannsóknasviði fyrirtækisins, Richard DeVaul, einnig sagt upp störfum. Er hann sagður hafa áreitt konu sem hafði sótt um starf hjá Google og sem hefði heyrt undir DeVaul. Hann hefur ekki tjáð sig um málið eftir uppsögnina, en hefur áður sagt það hafa verið „dómgreindarbrest“ af sinni hálfu.

48 reknir vegna kynferðisáreitis

48 starfsmenn Google hið minnsta hafa verið reknir vegna ásakana um kynferðisáreiti án þess að fá starfslokagreiðslu, samkvæmt því sem Pichai hefur sagt starfsfólki.

Þeir starfsmenn sem ganga út í dag munu skilja miða eftir á skrifborði sínu með skilaboðunum: „Ég er ekki við vinnu af því að ég geng út ásamt öðrum Google-starfsmönnum og verktökum til að mótmæla kynferðisáreiti, ósæmilegri hegðun, skorti á gagnsæi og vinnumenningu sem ekki virkar fyrir alla.“

Starfsmennirnir krefja stjórn Google um breytingar, m.a. að lagður verði niður gerðardómur í málum tengdum kynferðisbrotum og mismunun, en gerðardómur er algengt starfslag hjá fyrirtækjum í Silicon Valley sem nota hann til að koma í veg fyrir að mál komi fyrir dómstóla.

Þá krefjast starfsmennirnir einnig jafnréttis í launum og starfstækifærum og að gefin verði út skýrsla um kynferðislega áreitni, sem og að slíkum málum verði komið í ákveðið ferli og að starfmenn geti treyst á nafnleynd tilkynni þeir um áreiti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert