Fundu nýtt tungl við Neptúnus

Teikning af tunglinu Hippocamp og Neptúnusi. Í hægra horni myndarinnar …
Teikning af tunglinu Hippocamp og Neptúnusi. Í hægra horni myndarinnar glittir í tunglið Proteus sem Hippocamp er talið hafa brotnað úr. Teikning/NASA

Agnarsmátt tungl, sem er á stærð við bandarísku borgina Chicago fannst nýlega á innri sporbaug plánetunnar Neptúnusar. Tunglið hefur fengið nafnið Hippocamp eftir kynjaveru úr grísku goðsögunum.

Washington Post fjallar um tunglfundinn og segir Hippocamp gefa frá sér svo litla birtu að það sé ekki sýnilegt nema með aðstoð Hubble-geimsjónaukans.

Með því að rannsaka gögn sem ná yfir rúman áratug hafi vísindamenn hins vegar getað greint útlínur tunglsins, sem er í um þriggja milljarða mílna fjarlægð.

„Það eru forréttindi að geta átt þátt í að geta bætt við fjölda fasteigna sólkerfisins,“ hefur Washington Post eftir vísindamanninum Mark Showalter, sem fór fyrir rannsókninni sem birt var í vísindatímaritinu Nature í dag. „Þetta sýnir hins vegar hversu lítið við vitum enn um ísrisana Neptúnus og Úranus.“

Showalter og samstarfsmenn hans telja Hippocamp vera brot úr stærra tungli Proteus og telja það hafa brotnað frá í árekstri fyrir um fjórum milljörðum ára.

Plánetan Neptúnus hefur aðeins verið rannsökuð einu sinni í sögunni og það var er geimskipið Voyager 2 flaug þar stuttlega fram hjá árið 1989. „Það er hins vegar ýmislegt áhugavert að gerast þar, sem við höfum rétt séð glitta í,“ segir Showalter. „Fyrirbæri í andrúmsloftinu, hringir með sérstaka eiginleika og svo þessir árekstrar og brot sem mynduðu innri tunglin.“

Hippocamp er „ekki eitthvert lítilfjörlegt tungl sem við fundum,“ heldur hann áfram. Heldur séu tungl á borð við Hippocamp vitnisburður um mótun og þróun plánetanna á  sporbaugi sínum. „Með það í huga hafa þær áhugaverða sögu að segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert