Vélarbilun hjá Crew Dragon SpaceX

Þessi mynd sýnir Crew Dragon á heimleið frá Alþjóðlegu geimstöðinni.
Þessi mynd sýnir Crew Dragon á heimleið frá Alþjóðlegu geimstöðinni. AFP

SpaceX hefur staðfest að upp hafi komið frávik við reglubundna prófun á vél geimferjunnar Crew Dragon í Flórída. Samkvæmt talsmanni bandaríska flughersins hefur stjórn verið náð á aðstæðum og varð engum meint af atvikinu.

Crew Dragon er geimferja SpaceX, sem er í eigu Elon Musk, og á að geta flutt fólk út í geim. Fyrsta geimferja SpaceX af þessari gerð hélt ómönnuð út geim í mars með góðum árangri.

Hins vegar er talið að atvikið nú í Flórída geti valdið töfum á því að hægt verði að flytja fólk með geimferjunni, en upphaflega var vonast til þess að hægt væri að senda fólk til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar með ferjunni síðar á þessu ári.

Samkvæmt frétt BBC af málinu er ekki víst að svo verði úr þessu. Bandaríkin hafa ekki getað sent fólk út í geim með geimförum sínum síðan 2011. Þess í stað hafa þeir fengið geimför að láni frá Rússum.

SpaceX hefur hafið rannsókn á atvikinu og orsökum þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert