Kýlum á það!

Nelson Mandela barðist gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og varð forseti …
Nelson Mandela barðist gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og varð forseti landsins. Hann fylgdi viðhorfum sínum eftir með aðgerðum. AFP

Nils Arne Eggen, hinn frábæri þjálfari Rosenborgar í Þrándheimi í knattspyrnu karla til margra ára, sagði mér einu sinni í spjalli yfir kaffibolla á Lerkendal, heimavelli liðsins: „Hermundur, þú veist að ég skil á milli viðhorfs og aðgerða hjá einstaklingum. Þú veist að viðhorf er að hafa ákveðna skoðun á hlutum. Til dæmis að mér finnist að maður eigi að gera þetta til að ná þessu atriði. En aðgerðir er að raunverulega framkvæma hluti sem maður hefur talað um. Í Rosenborg vil ég hafa fólk sem sýnir aðgerðir í verki. Fólk sem framkvæmir það sem það talar um.“

Þegar Ola Listhaug, prófessor í stjórnmálafræði og fyrrverandi deildarforseti þeirrar deildar við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi (NTNU), var spurður að því hvernig deildin hefði náð svona frábærum árangri í birtingu vísindagreina í virtum alþjóðlegum tímaritum, svaraði hann: „Þegar ég ræð akademíska starfsmenn í stöður skoða ég eingöngu hvað þeir hafa gert á sínum vísindaferli. Þannig að góð ferilskrá með margar birtingar er lykilatriði því að eitt aðalmarkmið okkar við NTNU er að gera góðar rannsóknir.“

Í þessu felst að það er ekki nóg að tala um að efla birtingar í alþjóðlegum tímaritum, það þarf að framkvæma. Í tilfelli Ola var það að ráða fólk sem hafði sýnt að það kann að rannsaka. Eða eins og einn félagi minn sagði: „Að verða góður í rannsóknum er eins og að vera þátttakandi í afreksíþróttum.“

Hermundur Sigmundsson
Hermundur Sigmundsson Kristinn Magnússon

Á bak við bæði afreksíþróttamenn og framúrskarandi vísindamenn liggur mikil þjálfun og vinna. Við erum að tala um fólk sem hefur framkvæmt það sem það ætlaði sér.

Mismunur milli viðhorfa og aðgerða kemur mjög greinilega fram þegar skoðuð er lestrarkennsla hér á landi. Fólk sem maður ræðir við segir að við verðum að sjálfsögðu að bregðast við því slæma gengi sem hefur einkennt lestur ungs fólks síðustu árin (númer 27 af 33 þjóðum). Það sýnir jákvætt viðhorf.

Þegar skoðað er hvað virtar alþjóðlegar rannsóknir sýna að séu mikilvægustu þættir þess að efla lestrarkunnáttu og lesskilning kemur eftirfarandi í ljós:

Þjálfun – það að lesa bækur og margar bækur hefur mikið að segja fyrir lesskilning.

Áhugi – að ná að kveikja áhugann.

Áskoranir – að fá réttar áskoranir.

Hvernig náum við að skapa áhuga og fá börn og unglinga til að lesa margar bækur og gefa þeim réttar áskoranir og skapa flæði? Jú, með því að hafa góðar lestrarbækur með mismunandi erfiðleikastigi – sem passa áhuga stelpna, stráka og beggja kynja. Þá kemur að aðgerðum. Höfum við fengið inn í íslenska grunnskóla bækur eins og finnast annars staðar á Norðurlöndum með 11 erfiðleikastigum og 20 bækur á hverju stigi? Nei, því miður. Þannig að hérna er ekki samasemmerki milli viðhorfa og aðgerða. Viljum við sem ráðamenn, kennarar, foreldrar/forráðamenn, afar og ömmur ekki gera eitthvað í þessu?

Kýlum á það!

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert