Fá aðgang að facebooksíðu látinnar dóttur

Facebook taldi að mögulega væri verið að brjóta á þeim …
Facebook taldi að mögulega væri verið að brjóta á þeim sem stúlkan hafi átt samskipti við í gegnum tíðina. AFP

Hæstiréttur í Þýskalandi hefur heimilað að foreldrar táningsstúlku, sem lést árið 2012 eftir að hafa lent undir neðanjarðarlest, fái fullan aðgang að facebooksíðu dóttur sinnar. Þetta er gert svo foreldrar stúlkunnar geti komist að því hvort um sjálfsvíg hafi verið að ræða.

Árið 2018 hafði héraðsdómur veitt foreldrunum takmarkaðan aðgang að facebooksíðu stúlkunnar í sama tilgangi. Lögmaður foreldranna segir að um fullnaðarsigur sé að ræða.

Mögulega brot á persónuvernd

Fulltrúar Facebook höfðu sagt að mögulega væri með atvikinu verið að brjóta á rétti þeirra sem stúlkan hefði átt samskipti við og að foreldrarnir ættu ekki rétt á að skoða samskipti stúlkunnar við annað fólk.

Eftir úrskurðinn árið 2012 hafi Facebook afhent minnislykill sem hafði að geyma 14 þúsund blaðsíðna PDF-skjal um virkni stúlkunnar á facebooksíðunni, sem þá hafði verið breytt í minningarsíðu líkt og tíðkast þegar notendur Facebook falla frá.

Hins vegar hafði minnislykillinn ekki þótt nóg og því fór málið til hæstaréttar þar sem úrksurðað var að foreldrarnir fengju fullan aðgang að síðu dótturinnar.

„Erfingjar verða að eiga þess kost að fá að skoða facebooksíður látinna ástvina líkt og síðan birtist þeim fyrir andlát þeirra,“ sagði Christlieb Klager, lögmaður foreldra stúlkunnar.

Ekki í fyrsta sinn

Svona mál hafi valdið deilum lögspekinga víða um heim á síðustu árum. Þá segir í frétt AFP um málið að tæknirisinn Apple hafi hafnað kröfu FBI um að komast yfir skrár í síma tveggja árásarmanna í skotárás sem átti sér stað í Kaliforníu árið 2015.

Hins vegar hafi Apple veitt föður barns á Ítalíu, sem dó úr krabbameini árið 2016, aðgang að snjallsíma barnsins svo unnt væri að halda utan um myndir og aðrar minningar sem kynnu að vera geymdar á símanum.

mbl.is