Yfirgefa WhatsApp vegna persónuupplýsinga

Fjölmargir hafa yfirgefið WhatsApp og skráð sig í þjónustu samkeppnisaðilans …
Fjölmargir hafa yfirgefið WhatsApp og skráð sig í þjónustu samkeppnisaðilans Signal. AFP

Tæknilegir örðugleikar hafa skekið skilaboðaforritið Signal síðustu daga vegna gríðarlegrar fjölgunar notenda. Forritið, sem var áður tiltölulega óþekkt almenningi, hefur nú bætt við sig milljónum notenda á nokkrum sólahringum, en aukninguna má rekja til nýrra skilmála samkeppnisaðilans WhatsApp sem snúa að persónuupplýsingum. BBC greinir frá.

Í síðustu viku tilkynnti WhatsApp notendum sínum, sem telja um tvo milljarða, að vilji þeir halda áfram að nýta sér þjónustu forritsins verði þau að samþykkja að öllum persónuupplýsingum þeirra yrði deilt með Facebook, móðurfyrirtæki WhatsApp. Breytingarnar gilda ekki um notendur WhatsApp innan Evrópu eða í Bretlandi.

Í kjölfarið yfirgáfu milljónir notenda forritið og skráðu sig hjá samkeppnisaðilunum Signal og Telegram. Fyrirtækin þrjú, Signal, Telegram og WhatsApp, eru frí skilaboðaforrit þar sem notendur geta sent dulkóðuð skilaboð sín á milli.

WhatsApp segir að um misskilning sé að ræða.
WhatsApp segir að um misskilning sé að ræða. AFP

Í vikunni áður en WhatsApp kynnti nýja skilmála var Signal hlaðið niður tæplega 250 þúsund sinnum, en í vikunni eftir tilkynninguna var forritinu hlaðið niður tæplega 9 milljón sinnum.

WhatsApp heldur því fram að um misskilning sé að ræða. Fyrirtækið hafi deilt upplýsingum með Facebook áður en skilmálunum var breytt. Þá leggur fyrirtækið áherslu á að skilaboðum notenda verður ekki deilt með Facebook, heldur sé aðeins um að ræða símanúmer, upplýsingar um síma notenda, IP-tölur, staðsetningu, og greiðslur sem gerðar eru í gegnum forritið.

mbl.is