Nýtt lyf getur minnkað líkamsþyngd um 20%

Lyfið hefur áhrif á matarlystina.
Lyfið hefur áhrif á matarlystina. Ljósmynd/Getty Images

Vísindamenn segja að nýtt lyf sem hefur áhrif á matarlyst geti skipt sköpum í baráttunni við offitu. Niðurstöður rannsóknar þeirra sýna að lyfið getur minnkað líkamsþyngd um allt að 20 prósent.

Niðurstöður stórrar alþjóðlegrar rannsóknar á lyfinu voru birtar í tímaritinu New England Journal of Medicine. Þær sýndu að meira en einn þriðji hluti þeirra sem tók lyfið semaglutide missti meira en einn fimmta af líkamsþyngd sinni.

Tæplega tvö þúsund manns tóku þátt í rannsókninni í 16 löndum. Niðurstöðurnar sýndu einnig að þrír fjórðu hlutar þeirra sem tóku lyfið misstu yfir 10 prósent af líkamsþyngd sinni.

Lyfið hefur verið notað við sykursýki og virkar þannig að það hefur áhrif á matarlystina þannig að færri kaloríur eru innbyrðar.

Rachel Batterham frá University College London, einn helsti höfundur skýrslunnar, segir niðurstöðurnar „mjög afgerandi“. „Ekkert annað lyf hefur komist nálægt því að leiða til eins mikils þyngdartaps. Þetta breytir hlutunum gríðarlega,“ sagði Batterham.

„Í fyrsta sinn getur fólk með hjálp lyfja gert það sem áður var aðeins hægt með skurðaðgerð.“

Duane Mellor, næringarráðgjafi við Aston-læknaskólann í Birmingham, sagði við BBC að lyfið verði góður valkostur. Hún varaði samt við því að „það þarf enn breyttan lífsstíl til að ná þyngdartapi og öll lyf eða breytingar á lífsstíl geta haft áhættu í för með sér og hliðarverkanir“.

mbl.is