Musk boðar uppsagnir á Twitter þvert á teymi

Elon Musk.
Elon Musk. AFP/J. Brown

Elon Musk, frumkvöðull og nýjasti eigandi Twitter, hafði í hyggju að hefja uppsagnir á starfsfólki samfélagsmiðilsins í dag. 

Þetta hefur New York Times eftir heimildarmönnum sem vel þekkja til. 

Þegar hafi Musk gert yfirmönnum að taka saman lista yfir fólk sem segja á upp. 

Musk, sem gekk frá 44 milljarða bandaríkjadala yfirtöku sinni á Twitter á fimmtudaginn, hefur fyrirskipað uppsagnir á öllum sviðum fyrirtækisins þar sem sumar deildir verða fyrir meiri niðurskurði en aðrar. 

Enn liggur ekki fyrir hversu mikils niðurskurðar er ætlast en um 7.500 starfsmenn vinna hjá Twitter. 

Orðrómar um fjöldauppsagnir hafa verið á sveimi frá því að tilkynnt var um yfirtökutilboð Musks í apríl. Milljarðamæringurinn, sem einnig á bílaframleiðsluna Telsu og geimferðafyrirtækið SpaceX, kynnti snemma fyrir fjárfestum að hann hygðist taka félagið af markaði, draga úr starfsliði sem og reglum og ritskoðun á miðlinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert