Hörgárurriði étur mýs

Urriðinn og mýsnar úr Hörgsá.
Urriðinn og mýsnar úr Hörgsá. svak.is

Urriði veiddist fyrir skemmstu í Hörgá í Eyjarfirði og þegar veiðimaðurinn slægði fiskinn að lokinni veiðiferð fundust tvær fullorðnar mýs í innyflunum á honum. 

Frá þessu er greint inn á vef Stangveiðifélags Akureyrar sem heldur utan um veiðirétt í ánni. Að sögn Guðrúnar Unu Jónsdóttur,formanns félagsins, þá veiddist urriðinn í Bægisárhyl á veiðisvæði 5a fyrir nokkrum dögum. 

Urriðinn er gráðugur rán­fisk­ur og ótal sögur um að hann éti mýs ef færi gefst. Þá er þekkt að hann éti einnig andarunga og hafa menn meðal annars orðið vitni að því í Laxá í Mývatnssveit. Fyrir mörgum árum veiddist stór urriði í Langavatni á Mýrum þar sem í maganum á honum fundust sjö stálpaðir toppandarungar.

Annars lauk veiði í Hörgá svæðum 4b, 5a og 5b hinn 10. september, en opið er á öðrum veiðisvæðum út mánuðinn, Samkvæmt rafrænni veiðibók fyrir ána þá er búið að bóka 611 fiska þar, sem skiptast í 524 bleikjur og 87 urriða. Ekki er útilokað að enn eigi einhverjir eftir að skrá afla sinn.

Stærsta bleikjan það sem af er sumri veiddist á flugu á svæði 4b hinn 1. ágúst og mældist 61 cm á lengdina og 3,2 kíló að þyngd. Þá veiddust tvær 58 cm bleikjur á fluguna Phesant tail hinn 20. júlí í Bægisárhyl á svæði 5a sem voru vigtaðar 2,8 kíló.

Stærsti skráði urriðinn það sem af er veiddist 3. ágúst í Lönguhlíð á svæði 4a á fluguna Krókinn og var vigtaður 2,5 kíló og mældur á lengdina 52 cm.

Flugan hefur gefið 367 fiska, maðkurinn gefið 119 og 125 fiskar hafa komið á spón.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is

Sporðaköst, 3. þáttaröð 1996

Velja þátt: 1 2 3 4 5 6