„Ekki undir 25 pundum nýgenginn“

Gunnar J. Óskarsson með tröllslegan hænginn. 95 sentimetrar og áætlar …
Gunnar J. Óskarsson með tröllslegan hænginn. 95 sentimetrar og áætlar Gunnar að hann hafi ekki verið undir 25 pundum þegar hann gekk úr sjó. mbl.is/Aðsend mynd

Stærsti sjóbirtingur sem sögur fara af frá opnunardegi veiðitímabilsins er 95 sentimetra hængur úr Geirlandsá. „Hann hefur ekki verið undir 25 pundum þegar hann var nýgenginn,“ sagði Gunnar J. Óskarsson sem landaði fiskinum í gær í Ármótahyl. Gunnar er formaður Stangaveiðifélags Keflavíkur.

Hann hefur verið í opnunarholli í Geirlandsánni í tuttugu ár. „Ég held að þetta sé klárlega besta opnun sem ég hef upplifað hér á þessum tíma. Það var fiskur um allt og mjög mikið af stórum fiski. Ég er satt best að segja alveg búinn í handleggnum eftir að togast á við þessa stóru fiska. Við höfum aldrei sett í svona ofboðslega mikið af fiski í opnun.“

Sporðurinn var virkilega illa farinn eins og sést glögglega á …
Sporðurinn var virkilega illa farinn eins og sést glögglega á þessari mynd. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar og félagar byrjuðu veiðina ekki fyrr en um miðjan dag í gær og þegar var komið fram að kvöldmatartíma var Gunnar búinn að landa 39 fiskum. „Ég var nýbúinn að landa einum 91 sentimetra og það var mjög kröftugur fiskur. Sú viðureign stóð í meira en hálftíma, sem er mikið þegar við erum að tala um vorfisk.“ Gunnar var búinn að setja í flesta fiskana á Black Ghost-keilu en var búinn að tapa henni svo í staðinn kom þyngd Black Ghost-túpa. „Ég dró svakalega hægt og hún fór djúpt. Ég var búinn að segja við félagana að það væri gaman að enda á svona sléttri tölu. Þá tók þessi gamli höfðingi og ég var með hann í einhverjar tuttugu mínútur. Það sem við tókum eftir með þennan fisk er hvað sporðurinn á honum var illa farinn. Það hefðu hiklaust bæst við einn til tveir sentimetrar hjá greyinu ef hann hefði verið heill.“

Sjóbirtingnum sleppt á ný í Ármótahyl. Þarna mætast Stjórn og …
Sjóbirtingnum sleppt á ný í Ármótahyl. Þarna mætast Stjórn og Geirlandsá og heitir eftir það Breiðbalakvísl. Ljósmynd/Aðsend
Hvað myndirðu giska á að þessi fiskur hefði vegið þegar hann gekk í ána?

„Miðað við það að við erum búnir að landa mörgum sjóbirtingunum og vitum að 83 til 85 sentimetra fiskar eru að vigta um fimmtán pund, þá erum við að tala um 25 pund. Miðað við hvað sentimetrinn er þungur í sjóbirtingi þá stend ég við það allan daginn að hann hefur ekki verið undir 25 pundum, nýgenginn. Þetta var hlunkur.“

Gunnar segir að aflinn hafi verið til helminga geldfiskur og hrygningarfiskur.

„Það sést vel vel að þessi stóri fiskur er ekki mjög horaður en heldur ekki feitur. Mér sýnist að fiskurinn hafi ekki þurft að hafa mikið fyrir vetrinum. Eins og hann hafi þurft að brenna minna en mörg ár. En þetta er svona klassískur vorhængur. Sum árin höfum við verið að veiða mjög grannan og horaðan fisk en hann leit vel út núna.

Við vorum í botnlausri töku nánast allan tímann sem við vorum að veiða. Mér telst til að þegar upp var staðið þá lönduðum við 104 fiskum á þessar fjórar stangir.“

Skilyrði í gær voru frábær segir Gunnar. Hins vegar sé blástur í dag og meiri kuldi. 

Tungufljótið gaf vel

Veiðimenn sem opnuðu Tungufljótið í gær voru hæst ánægðir með daginn. Á land komu 38 fiskar og eins og oft fékkst stærsti sjóbirtingurinn í Efri-Hólma. Hann tók Black Ghost eins og hjá svo mörgum öðrum. Það leynir sér ekkert á myndinni að þó að þetta flokkist sem vorveiði þá væri vetrarveiði kannski nákvæmara orðalag.

Sigurberg Guðbrandsson með 72 sentimetra sjóbirting úr Efri-Hólma í Tungufljóti. …
Sigurberg Guðbrandsson með 72 sentimetra sjóbirting úr Efri-Hólma í Tungufljóti. Black Ghost tók þessi eins og svo margir aðrir í gær. Ljósmynd/Aðsend

148 fiskar úr Litluá

Heildarveiðin í Litluá í Kelduhverfi var 148 fiskar á opnunardeginum. Jón Tryggvi Helgason, einn af leigutökum árinnar segir þetta eina bestu opnun sem hann man eftir. Að stærstum hluta voru þetta sjóbirtingar og staðbundnir urriðar en þó voru fimmtán bleikjur í aflanum. 

Fréttir sem hafa borist af öðrum veiðisvæðum eru af svipuðum toga og ljóst að þessi fyrsti dagur veiðitímans var hreint út sagt frábær hjá mörgum veiðimanninum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert