Breytt umgjörð við Hítará - laxinn mættur

Nýja gistihúsið við hliðina á gamla veiðihúsinu mun gerbreyta allri …
Nýja gistihúsið við hliðina á gamla veiðihúsinu mun gerbreyta allri aðstöðu fyrir veiðimenn. Ljósmynd/Hítará

Umfangsmiklar endurbætur hafa staðið yfir á húsakosti við Hítará á Mýrum í allan vetur og vor. Segja má að ný og glæsileg umgjörð bíði veiðimanna. Laxinn er mættur í töluverðu magni og vatnsmagn er ótrúlega gott miðað við ástand á Vesturlandi. Áin opnar að morgni 18. júní.

Gamla og svipmikla veiðihúsið við Hítará, Lundur, hefur tekið stakkaskiptum. Útlitslega er húsið óbreytt að sjá en nánast hver einasta fjöl innra hefur verið endurnýjuð og skipt um allar raflagnir og pípulögn ásamt því að gamla húsið hefur verið endurhannað og er nú mun rýmra um veiðimenn í því. Ný svefnálma hefur verið byggð og eru þar sex herbergi hvert um sig með baði og útsýni yfir ána. Orri Dór Guðnason sem er í forsvari fyrir félagið Grettistak sem leigir Hítará, er mjög ánægður með hvernig hefur tekist til. „Lundur er náttúrulega tæplega hundrað ára gamalt hús og margt var farið að láta verulega á sjá. Húsið var að síga og við löguðum það, fjarlægðum alla myglu og rakaskemmdir. Ég hlakka til að fá veiðimenn sem þekkja aðstöðuna. Hér kom til að mynda kokkur í gær sem hafði unnið hér og hann missti bara hökuna niður á maga. Húsið er allt orðið svo stórt og rúmgott,“ sagði Orri Dór í samtali við Sporðaköst.

Gamla stofan í Lundi heldur sér í sinni gömlu mynd, …
Gamla stofan í Lundi heldur sér í sinni gömlu mynd, en húsið hefur verið endurnýjað og endurhannað frá grunni. Ljósmynd/Hítará

Þá er búið að gerbreyta þeim hluta sem snýr að gistiaðstöðu. Nýtt 170 fermetra hús með sex herbergjum bíður veiðimanna. „Nú getur hver stöng keyrt að sínu 25 fermetra herbergi og allir njóta útsýnis yfir ána. Nú er Lundur einungis nýttur sem borðsalur og stofa og sameiginlegt rými. Svefn aðstaðan er þannig aðskilin og þar fá menn sitt næði.“

Töluvert af fiski og ágætt vatn

Síðustu iðnaðarmennirnir eru að klára og stutt er í opnun. Fyrsti veiðidagur rennur upp eftir viku og segist Orri Dór vera mjög spenntur fyrir hönd þeirra veiðimanna sem þá byrja. „Já. Það er komið töluvert magn af fiski og við höfum séð bæði fiska í Húshylnum og Breiðinni og bara nokkuð mikið af þeim.“

Miklir þurrkar hafa sett strik í reikninginn í laxveiðinni á Vesturlandi en Orri Dór hefur ekki áhyggjur af því ástandi með Hítará. Hann segir vatnsmagnið ótrúlega gott og telur að lónið sem hamfaraskriðan mikla í fyrra myndaði, hafi verið að fóðra ána. Það hefur minnkað mikið og svo er Grjótá og Tálmi einnig að hjálpa til en Hítará nýtur þeirrar viðbótar nú mun fyrr en áður var. Hítará II er aftur á móti mjög vatnslítil.

Matsalurinn í gamla veiðihúsinu er nú rýmri og hentugri.
Matsalurinn í gamla veiðihúsinu er nú rýmri og hentugri. Ljósmynd/Hítará

En hvað með ána, eftir skriðuna í fyrra. Hítará er svolítið spurningarmerki, er það ekki?

„Þetta á eftir að koma í ljós. En staðan er samt þessi að skriðan féll 8. júlí og á þeim tíma var mikið af seiðunum gengið til sjávar. Fiskurinn gekk inn í nýja farveginn og við vitum ekki betur en að hrygning hafi orðið eðlileg. Það má alveg halda því fram að það séu miklir möguleikar með nýja farveginn.“

Verður farið í að grafa í gegnum skriðuna. Er einhver ákvörðun fyrirliggjandi í þeim efnum?

Orri Dór segist ekki blanda sér í þá umræðu. „Það eru bara þeir sem eiga ána sem ákveða þetta. Það er vilji veiðifélagsins að skoða þetta mál. Verði það reyndin að menn fari í þá framkvæmd, þá vinn ég með þá stöðu, annars vinn ég með þetta eins og staðan er í dag. Aðalmálið er í mínum huga að það verði ekki farið í framkvæmdir á veiðitíma og það er fullur skilningur á því.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Blanda Tom Tynan 9. júlí 9.7.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.

Skoða meira