Fín byrjun í Deildará

Lax sem landað var úr Deildará í morgun.
Lax sem landað var úr Deildará í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Deildará á Sléttu opnaði í morgun og fór vel af stað. Samkvæmt fyrstu fréttum þaðan þá lofar byrjunin í góðu.

Það eru þeir Þórarinn Blöndal og Steingrímur Friðriksson sem opna ána í ár en nú er veitt á tvær stangir. Þeir fóru seint út í morgun og fóru snemma í hádegismat en náðu þó þremur löxum á land sem voru 92, 86 og 70 cm.

Tveir komu úr Langhyl sem er nokkuð ofarlega í ánni, en sá þriðji úr Holtum sem er miðsvæðis. Laxarnir komu á Sunray shadow. Því til viðbótar veiddu þeir félagar sjö ágæta silunga, bæði bleikju og urriða.

Deildará fellur úr Deildarvatni og er um 7 km löng og er veidd með tveimur til þremur stöngum. Meðalveiði í gegnum árin hefur verið um 175 laxar.

Núverandi leigutaki árinnar er hópur Íslendinga sem kalla sig Salmon Fishing Iceland sem hafa leigt hana frá 2016. Áður var það Svisslendingurinn Ralph Doppler sem leigði ána frá 1989 og nýtti veiðiréttinn að mestu leyti sjálfur og var áin þá að mestu leyti lokuð fyrir Íslendinga.

Stórlax bíður eftir að vera sleppt við Deildará í morgun.
Stórlax bíður eftir að vera sleppt við Deildará í morgun. Ljósmynd/Aðsend
Við Deildará í morgun.
Við Deildará í morgun. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is