Tímamótasamningur um Vatnsdalsá

Fulltrúar leigutaka og stjórnar Veiðifélags Vatnsdalsár eftir að samningurinn var …
Fulltrúar leigutaka og stjórnar Veiðifélags Vatnsdalsár eftir að samningurinn var samþykktur í gær. Frá vinstri: Sturla Birgisson, Björn K. Rúnarsson, Egill Herbertsson, Sigfús Ingimundarson og Kristján Þorbjörnsson, formaður veiðifélagsins. Á myndina vantar tvo stjórnarmenn, þau Berglindi og Jakob. Ljósmynd/Vatnsdalsá

Veiðifélag Vatnsdalsár samþykkti einróma nýjan samning við G og P ehf. á aðalfundi félagsins í gær. Óhætt er að segja að um tímamótasamning sé að ræða. Hann er til tíu ára og leigan fyrir laxahluta árinnar hækkar ekki milli ára. Hér er stigið létt til jarðar og horfst í augun við þá staðreynd að óvissutímar eru fram undan þegar kemur að laxveiði.

Eigendur G og P ehf. eru Björn K. Rúnarsson, Sturla Birgisson og Eric Clapton í jöfnum hlutföllum. Þeir félagar hafa verið með Vatnsdalsá á leigu síðustu ár og var samningur um ána að renna út.

Nokkrar breytingar eru gerðar með nýjum samningi. Þannig leigir G og P einnig silungasvæðið í fyrsta skipti, en síðustu ár hefur félagið séð um sölu og fengið fyrir það prósentur. Leiga laxasvæðisins hækkar ekki og er sama krónutala og verið hefur. Síðustu samningar sem Sporðaköst hafa skrifað um þar sem nýir samningar hafa verið gerðir um laxveiðiár hafa margir hverjir falið í sér verulegar og jafnvel miklar hækkanir á leiguverði. Samningurinn er verðtryggður að hluta til með vísitölu og einnig þróun á gengi dollars. Endurskoðunarákvæði eru í samningnum á tveggja ára fresti og geta báðir samningsaðilar óskað eftir að virkja þau ákvæði.

Helgi Þórðarson, eða Reiða öndin eins og hann kallar sig …
Helgi Þórðarson, eða Reiða öndin eins og hann kallar sig með 103 sentímetra fisk sem hann veiddi í Vatnsdalsá í opnun árið 2017. Þessi fiskur veiddist í Birgishyl. Ljósmynd/Aðsend

Til stendur að byggja nýtt veiðihús fyrir veiðifólk á silungasvæðinu.

Aðalfundur veiðifélagsins var haldinn í gær og mættu allir. Þegar nýr samningur var borinn upp til atkvæðagreiðslu var hann samþykktur samhljóða með öllum atkvæðum.

„Þessi samningur byggir á gömlum merg og G og P er búið að vera með ána á leigu í áratugi, þó svo að aðrir eigendur séu nú að félaginu. Þetta hefur gengið afskaplega vel og samvinnan verið góð. Það hefur skapast mikið traust á milli leigusala og leigutaka. Þegar samningurinn var að renna út þá töldum við þann kost betri að ganga til samninga við þá frekar en að fara að bjóða ána út og fara út í óvissuna. Það tókst með okkur samningurinn sem ég held að báðir aðilar geti vel við unað,“ sagði Kristján Þorbjörnsson, formaður Veiðifélags Vatnsdalsár, í samtali við Sporðaköst að afloknum aðalfundi í gær.

Vatnsdalurinn geymir Vatnsdalsá og þó svo að laxveiði þar hafi …
Vatnsdalurinn geymir Vatnsdalsá og þó svo að laxveiði þar hafi dalað, eins og víðast hvar undanfarin ár þá geymir hún alltaf stóra fiska. Nú hefur nýr samningur um ána verið undirritaður til tíu ára. mbl.is/Einar Falur

En hafið þið upplifað að erfiðara sé að selja veiðileyfi?

„Við höfum svo sem ekki upplifað það. En það vita náttúrulega allir hvaða ástand er í gangi með alls konar óáran. Minnkandi laxagengd og eldislaxa og fleira. Þannig að það er brekka. Þetta er þrengri staða á markaðnum og færri sóknarfæri en áður.“

Björn K. Rúnarsson og Sturla Birgisson voru ánægðir með samninginn, þegar Sporðaköst náðu tali af þeim saman í bíl á suðurleið með samninginn undirritaðan. „Við erum sérlega ánægðir með samninginn og ekki síst það að okkur finnst hann taka mið af þeirri stöðu sem uppi er í laxveiðibransanum í dag. Það eru erfiðari tímar og óvissa fram undan. Laxahluti árinnar hækkar ekki og það er sama krónutala og verið hefur. Mér finnst samningurinn taka mið af þessari stöðu á báða bóga. Auðvitað er líka mikilvægt að fá svona langan tíma og sérstaklega í ljósi þess að við erum að fara í uppbyggingu á silungasvæðinu,“ sagði Björn K. Rúnarsson.

Nú hefur Bjössi, staðarhaldari flaggað Liverpool-fánanum í tíma og ótíma. Hvernig horfið þið á það, Kristján?

„Það er ekki til bóta.“

Það er ekki þannig að það geti leitt til leiðinda?

„Nei. Við horfum bara í hina áttina þegar við keyrum fram hjá,“ hló Kristján og bætti því við að til væru ráð við öllu nema ráðaleysi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert