Ekki útilokað að hnúðlax sé „íslenskur“

Jón Þór Júlíusson með hnúðlaxahæng sem veiddist í Grímsá í …
Jón Þór Júlíusson með hnúðlaxahæng sem veiddist í Grímsá í síðustu viku. Ekki er hægt að útiloka að hnúðlaxar sem eru að veiðast í ár séu úr hrygningu í íslenskum ám. Ljósmynd/ES

Útbreiðsla hnúðlax á Íslandi hefur vakið mikla athygli í sumar. Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun segir að ekki sé hægt að útiloka að um sé að ræða fisk úr hrygningu í íslenskum ám. Hrygning var staðfest sumarið 2017 í tveimur ám á Íslandi. Lífsferill hnúðlaxins er tvö ár og drepst hann allur eftir hrygningu.

Guðni hafði spáð stóru hnúðlaxa ári í sumar og er það fyllilega að ganga eftir. Nú styttist í hrygningu hjá hnúðlaxinum en hann hrygnir töluvert fyrr en Atlantshafslaxinn. Seiði hnúðlaxins þurfa ríflega sex hundruð gráðudaga til að klekjast á meðan að sá íslenski þarf aðeins ríflega fjögur hundruð. Erfitt er að finna seiði hnúðlaxins þegar þau ganga til sjávar því þau eru mjög lítil.

Nýgenginn hnúðlaxahængur sem veiddist í Hafralónsá. Þar hafa veiðst nokkrir …
Nýgenginn hnúðlaxahængur sem veiddist í Hafralónsá. Þar hafa veiðst nokkrir í sumar. Sigurður Ólafsson

Nú er í undirbúningi verkefni í Kanada sem gengur undir nafninu „Þúsund áa verkefnið,“ og verður Ísland hluti af því. Markmiðið er að fá vatnssýni úr þúsund ám og greina hvaða fiskistofnar eru í þeim. Þá stendur landeigendum eða veiðiréttarhöfum til boða að láta taka vatnssýni og með nýrri tækni er hægt að greina tegundirnar sem eru í viðkomandi á. Kostnaður við greiningu mun verða á bilinu fjörutíu til fimmtíu þúsund krónur. Sýnin eru tekin með sérstökum búnaði og er það aðeins á færi þeirra sem vel þekkja til að annast sýnatöku. Nýja tæknin sem gengur undir nafninu e-DNA getur greint hvort hnúðlax er í ánni og einnig aðrar framandi tegundir svo sem eins og steinsuga. Þetta verkefni verður auglýst síðar.

Sem dæmi um magnið af hnúðlaxi núna þá hafa veiðst fimm slíkir í Syðri Brú í Soginu sem er bara með eina stöng. Níu hafa veiðst í Fögruhlíðará fyrir austan og einn þeirra sem veitt hefur þessa fiska er Sigurður Staples, eða Súddi veiðivörður. „Óskar Páll fékk fjóra og ég fékk líka fjóra um daginn og var þá áður búinn að fá einn. Þannig að við erum komnir með níu stykki,“ sagði Súddi í samtali við Sporðaköst. Hann segir erfitt að meta hvort hnúðlaxinn sé í miklu magni en hann hefur til viðbótar misst þrjá hnúðlaxa og séð þá elta. „Við höfum verið að veiða einn og einn en aldrei neitt í líkingu við þetta sem við erum að sjá í sumar.“

Hvaða flugur er hnúðlaxinn að taka hjá ykkur?

„Þeir tóku allir Selmu Dröfn hjá mér og Beygluna hjá félaga mínum. Hrygnurnar eru allar eins og silfurbjartar en hængurinn er aðeins stærri. Það er ekkert skrítið að menn rugli saman hrygnunni og bleikju. Lagið er alveg það sama og á bleikjunni. Já og nú man ég að ég fékk einn líka í Norðfjarðará. Það var hnúðlaxahrygna.“

Gott gengi í Jöklu

Veiði er með ágætum í Jöklu og hefur fiskur dreift sér vel um ánna. 242 laxar voru komnir á land í gær þegar við ræddum við Súdda. Hólaflúðin er einn besti veiðistaðurinn eins og verið hefur, en neðsti hlutinn gefur ekki eins mikið og fyrri ár en á móti er efri hlutinn að skila meiri veiði. Jökla gaf mjög góða veiði í fyrra eða allt þar til áin fór á yfirfall og þá verður hún óveiðandi. Ekki er vitað hvenær Jökla fer á yfirfall í sumar. Á móti er lítill gangur í Breiðdalsá og fáir hafa verið þar við veiðar það sem af er sumri.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert