Stefnir í metfjölda í vatnaveiðinni

Falleg bleikja hefur tekið Peacock með bleikum kraga í Þingvallavatni. …
Falleg bleikja hefur tekið Peacock með bleikum kraga í Þingvallavatni. Þessi tími er að bresta á. Ljósmynd/Ríkarður Hjálmarsson

Það stefnir í metfjölda veiðimanna í vatnaveiðinni sem senn kemst á fullt skrið. Veiðikortið selst sem aldrei fyrr og segir Ingimundur Bergsson sem sér um það að nú stefni í metár. „Það er alveg ljóst að landinn ætlar að ferðast innanlands og njóta landsins gæða. Þetta er allt að detta í gang og næsta vika verður mjög spennandi með hækkandi lofthita og jafnara hitastigi,“ sagði Ingimundur í samtali við Sporðaköst.

Vorið er komið á Suðvesturlandi og besta dæmið um það er Elliðavatnið í nágrenni borgarinnar. Ingimundur var þar á gönguferð í gærkvöldi og hann sagði að skyndilega hefði komið svolítið toppfluguklak og vatnið sauð af fiski í smá tíma þegar hann var að éta fluguna. Hann hitti veiðimenn sem lönduðu á stuttum tíma fimm góðum urriðum og misstu annað eins. „Þetta stóð í svona klukkustund og það kraumaði vatnið. Svo hægðist um aftur. Ég var því miður ekki með stöngina í bílnum,“ brosti Ingimundur.

Jóhannes Guðjónsson með flottan urriða úr Hólaá í gær.
Jóhannes Guðjónsson með flottan urriða úr Hólaá í gær. Ljósmynd/Aðsend

Bleikjan er aðeins farin að gefa sig í þjóðgarðinum en þar eru menn enn mest að nota straumflugur fyrir urriða. „Það er eins og kuðungableikjan taki ekki straumflugurnar. Einstaka bleikjukarlar hafa verið að setja i hana og verið með púpur undir.“

Þegar hann er spurður um stöðuna fyrir norðan og austan segist hann lítið hafa heyrt enda enn kalt í lofti og nánast vetrarástand.

Meðalfellsvatn gaf aðeins veiði fyrr í mánuðinum og Hraunsfjörðurinn er að detta í gang.

Hólaá, sem rennur úr Laugarvatni í Apavatn, er ein af þessum skemmtilegu silungsveiðiám þar sem hægt er að komast í fína veiði fyrir sanngjarnt verð. Framan af veiðitímanum veiðist fyrst og fremst urriði en nú er farið að bera á bleikjunni og var afli veiðimanna um helgina til helminga urriði á móti bleikju. Eftir nokkrar vikur verður bleikjan allsráðandi. „Það er svo magnað þegar þessi grunnu frjósömu vötn hitna að þá er eins bleikjan leiti upp í ána. Urriðinn á móti hverfur og heldur meira til í vötnunum,“ sagði Stefán Sigurðsson hjá Iceland Outfitters sem selja veiðileyfi í Hólaá. Hann sagðist líka vita til þess að menn hefðu verið að gera góða veiði í bæði Laugarvatni og Apavatni. „Þetta eru náttúrlega ótrúlega frjósöm vötn og það er mikið af fiski á þessu svæði, alla jafna.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert