Stefnir í metfjölda í vatnaveiðinni

Falleg bleikja hefur tekið Peacock með bleikum kraga í Þingvallavatni. …
Falleg bleikja hefur tekið Peacock með bleikum kraga í Þingvallavatni. Þessi tími er að bresta á. Ljósmynd/Ríkarður Hjálmarsson

Það stefnir í metfjölda veiðimanna í vatnaveiðinni sem senn kemst á fullt skrið. Veiðikortið selst sem aldrei fyrr og segir Ingimundur Bergsson sem sér um það að nú stefni í metár. „Það er alveg ljóst að landinn ætlar að ferðast innanlands og njóta landsins gæða. Þetta er allt að detta í gang og næsta vika verður mjög spennandi með hækkandi lofthita og jafnara hitastigi,“ sagði Ingimundur í samtali við Sporðaköst.

Vorið er komið á Suðvesturlandi og besta dæmið um það er Elliðavatnið í nágrenni borgarinnar. Ingimundur var þar á gönguferð í gærkvöldi og hann sagði að skyndilega hefði komið svolítið toppfluguklak og vatnið sauð af fiski í smá tíma þegar hann var að éta fluguna. Hann hitti veiðimenn sem lönduðu á stuttum tíma fimm góðum urriðum og misstu annað eins. „Þetta stóð í svona klukkustund og það kraumaði vatnið. Svo hægðist um aftur. Ég var því miður ekki með stöngina í bílnum,“ brosti Ingimundur.

Jóhannes Guðjónsson með flottan urriða úr Hólaá í gær.
Jóhannes Guðjónsson með flottan urriða úr Hólaá í gær. Ljósmynd/Aðsend

Bleikjan er aðeins farin að gefa sig í þjóðgarðinum en þar eru menn enn mest að nota straumflugur fyrir urriða. „Það er eins og kuðungableikjan taki ekki straumflugurnar. Einstaka bleikjukarlar hafa verið að setja i hana og verið með púpur undir.“

Þegar hann er spurður um stöðuna fyrir norðan og austan segist hann lítið hafa heyrt enda enn kalt í lofti og nánast vetrarástand.

Meðalfellsvatn gaf aðeins veiði fyrr í mánuðinum og Hraunsfjörðurinn er að detta í gang.

Hólaá, sem rennur úr Laugarvatni í Apavatn, er ein af þessum skemmtilegu silungsveiðiám þar sem hægt er að komast í fína veiði fyrir sanngjarnt verð. Framan af veiðitímanum veiðist fyrst og fremst urriði en nú er farið að bera á bleikjunni og var afli veiðimanna um helgina til helminga urriði á móti bleikju. Eftir nokkrar vikur verður bleikjan allsráðandi. „Það er svo magnað þegar þessi grunnu frjósömu vötn hitna að þá er eins bleikjan leiti upp í ána. Urriðinn á móti hverfur og heldur meira til í vötnunum,“ sagði Stefán Sigurðsson hjá Iceland Outfitters sem selja veiðileyfi í Hólaá. Hann sagðist líka vita til þess að menn hefðu verið að gera góða veiði í bæði Laugarvatni og Apavatni. „Þetta eru náttúrlega ótrúlega frjósöm vötn og það er mikið af fiski á þessu svæði, alla jafna.“

mbl.is