Draumafiskurinn kom í fyrstu ferð

Draumurinn rættist hjá Knúti í fyrstu laxveiðiferð sumarsins.
Draumurinn rættist hjá Knúti í fyrstu laxveiðiferð sumarsins. Ljósmynd/Sverrir Karl Matthíasson

Draumurinn um 100 sentímetra fisk, eða tuttugu pundara, eða tíu kílóa fisk, er eitthvað sem flestir veiðimenn gæla við. Mönnum tekst misjafnlega á þessu sviði. Sumir segja þetta keppni í heppni en samt er það svo að það er alltaf magnað þegar draumurinn rætist.

Veiðimaður sem upplifði drauminn um mánaðamótin sendi Sporðaköstum skemmtilega veiðisögu af draumafiskinum sem hann veiddi í Hrútafjarðará í sumar. Veiðimaðurinn heitir Knútur Magnús Björnsson og myndirnar tók Sverrir Karl Matthíasson. Gefum Knúti orðið:

Fyrsta laxveiði sumarsins er ávallt sérstök, mikill spenningur og tilhlökkun einkenna hvert laxveiðisumar. Skyldi þetta vera sumarið sem sá stóri tekur er spurning sem ég spyr mig á hverju sumri. Þrátt fyrir að hafa veitt í tæp 15 ár. Ég hef hins vegar aldrei tekið lax sem nær 10 kg þótt maður hefur tekið þá nokkra milli 80-90 sentímetra.

Fyrsta veiði sumarsins var perlan í Hrútafirðinum, sú á er algjörlega einstök þegar kemur að fallegri náttúru og ávallt stórlaxavon enda koma alltaf 20 pundarar þar á hverju sumri. Ég hef séð þá nokkra þar en aldrei fengið þá til að taka. Lagt var af stað um mánaðarmótin júní/júlí og veiðifélaginn minn sem hefur veitt ánna í mörg ár er óvenju spenntur. Draumavatn er í ánni og slatti af fiski nú þegar gengið í hana. Við vorum svolítið lengi á leiðinni út af þoku á Holtavörðuheiðinni.

Við komum í veiðihúsið milli 16-17 og vorum snöggir að gera okkur til enda mikill spenningur, við eigum svæði tvö sem hafði gefið nokkra fiska og þá aðallega í stað sem kallast Bálkur. Við ákváðum að byrja ofarlega á svæðinu, nánar tiltekið í Sírus sem gefur gjarnan góða veiði. Ég kem strax auga á fisk í veiðistað á milli Sírus og Rauðamelshyls. Félagi minn ákveður að skauta lítilli Rauðri Frances nr. 16 yfir hylinn og kembir hann vel en ekkert gerist. Ég á rennsli númer tvö og fyrir valinu var minnsta Sunray sem ég átti og lét ég krók nr. 14 á hana.

Vopnaður Winston Boron III X 9,6 feta stöng með línu 6 og 15 punda taum byrja ég að kasta ofarlega og frekar þvert. Ég strippa fluguna mjög hratt en stutt, þessi aðferð hefur reynst mér oft vel á nýja fiska. Í fimmta kasti þverkasta ég miðjan hylinn og byrja að strippa og þá kemur það „BÆNG“ og þvílík taka! Fiskurinn negldi hana í yfirborðinu og þar sem ég var að strippa svo hratt þá hafði línan flækst í hjólinu. Fyrsti fiskur sumarsins, geggjuð taka og flækt hjól… boðar ekki gott. Hins vegar lagðist fiskurinn eins og steinn og við gátum í rólegheitunum losað línuna og þá byrjaði ég að taka á honum en ekkert gerðist.

Nýgenginn 97 sentímetra hængur. Ummálið 54 sentímetrar. Glæsilegt eintak.
Nýgenginn 97 sentímetra hængur. Ummálið 54 sentímetrar. Glæsilegt eintak. Sverrir Karl Matthíasson

Ég hugsaði strax með mér að þetta væri ágætis fiskur og líklega ekki sá fiskur sem ég sá í hylnum fyrr. Fiskurinn byrjar síðan að hreyfa sig og tekur sökk. Við veiðifélagarnir horfum á hvorn annan og hugsum það sama, þetta er stórlax. Laxinn straujar upp í næsta hyl og aftur niður og ég ræð lítið við hann með þessa 6u sem var kengboginn eins og U. Eftir um 35 mín og mikið stress ákveður fiskurinn að sýna sig meir og veiðifélaginn minn sem stendur við bakkann til að koma auga á hann missir hökuna í jörðina og segir að þetta sé alvöru fiskur. Stressið magnast upp í mér þar sem ég ræð ekkert við hann með þessar léttu græjur. Fiskurinn var hvergi nærri hættur og ákveður að bruna niður í næsta hyl.

Ég var byrjaður að taka fast á honum þarna og bremsan komin í botn, það er nokkuð grunnt á milli þessara veiðistaða og fiskurinn strandar sér í raun sjálfur þarna á leiðinni niður. Félagi minn hleypur á hann og nær að sporðtaka hann, loksins hugsa ég og hleyp að fiskinum. Þá fyrst sé ég hann almennilega og segi „þetta er hann!! Þetta er 20 pundarinn“. Eftir mælingar reyndist hann 97cm en gífurlega þykkur eins og þeir eru oft í Hrútunni (tæpir 54 cm í ummál) og nýlegur hængur. Eftir nokkrar myndir og mælingar fær hængurinn líf og brunaði aftur í hylinn með látum. Ég var hálf máttlaus í löppunum eftir þetta og hugsaði með mér að byrjun á laxveiði sumri getur ekki verið mikið betri en þetta… (líklega) 20 punda nýlegur hængur, yfirborðsstaka og stöng fyrir línu 6 með 15 punda taum.“

Sporðaköst þakka Knúti söguna og standa með honum í því að þetta er tuttugu pundari, eftir að hafa séð myndirnar.    

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fnjóská Gunnar Jónsson 2. ágúst 2.8.
101 cm Laxá í Dölum Arnór Ísfjörð Guðmundsson 30. júlí 30.7.
102 cm Laxá í Dölum Arnór Ísfjörð Guðmundsson 26. júlí 26.7.
106 cm Nesveiðar Ingvi Jökull Logason 25. júlí 25.7.
102 cm Nesveiðar Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 25. júlí 25.7.
102 cm Nesveiðar Nils Folmer Jörgensen 21. júlí 21.7.
100 cm Nesveiðar Anna Margrét Kristinsdóttir 19. júlí 19.7.

Skoða meira