Tók 23 birtinga úr sama hylnum

Með fallegan sjóbirting úr Staðará. Dagurinn var magnaður og landaði …
Með fallegan sjóbirting úr Staðará. Dagurinn var magnaður og landaði Árni Kristinn 23 birtingum úr sama hylnum. Ljósmynd/ÁKS

Árni Kristinn Skúlason skellti sér í Staðará á Snæfellsnesi og eins og hann segir sjálfur kom hún honum heldur betur á óvart.

„Ég hafði litlar væntingar þar sem ég hélt að besti tíminn í henni væri í júlí og ágúst og ákvað því að sleppa ósasvæðinu. Magnús Anton vinur minn sem sér um söluna á svæðinu gaf mér nokkur ráð og ég byrja við þjóðvegarbrú með Iðu. Iðan gaf ekkert og kom það mér á óvart. Ég ákvað að setja kvarttommu-tungsten-Frances með mjög löngum fálmurum. Eitthvað í mér sagði að það væri lax þarna og ég byrja að upstreama. Ég setti í fjóra fiska og landaði einum, tvo missti ég eftir að hafa elt þá niður ána, einn af þeim var ágætis lax en hitt sjóbirtingar,“ sagði Árni Kristinn í samtali við Sporðaköst.

Hylurinn fyrir neðan þjóðvegsbrú geymdi torfu af geldfiski og flestir …
Hylurinn fyrir neðan þjóðvegsbrú geymdi torfu af geldfiski og flestir voru grálúsugir. Ljósmynd/ÁKS

Hann ákvað að hvíla staðinn, og prófaði fallegan streng fyrir neðan en varð ekkert var. Þegar hann kom aftur að þjóðvegarbrúnni byrjaði ævintýrið fyrir alvöru.

„Ég ákvað að prófa að setja púpur og setti undir Röndina og Squirmy, það sveik mig ekki og í fyrsta kasti tók fiskur. Hann var yfir pund og hnöttóttur, en það kom mér á óvart að hann var lúsugur, alveg grálúsugur.

Nýkominn úr hafi og lúsugur. Geldfiskurinn var mættur og segir …
Nýkominn úr hafi og lúsugur. Geldfiskurinn var mættur og segir Árni Kristinn hann hafa verið tökuglaðan eins og gjarnan er með nýgenginn fisk. Ljósmynd/ÁKS

Það var torfa af geldfiski í hylnum, allir grálúsugir og brjálaðir. Ég endaði daginn með 23 fallega sjóbirtinga, flestir voru 1-2 pund en sá stærsti slagaði í 60 sentímetra. Mér finnst magnað að ég skuli hafa lent í svona veiði í einum hyl, ég skil ekkert í mér að hafa sleppt ósasvæðinu sem er sagt vera eitt það besta á Vesturlandi. Ég á eftir að fara í Staðará aftur, það er á hreinu,“ sagði Árni Kristinn.

Og hvar fær maður veiðileyfi í Staðarána?

„Þau fást á Tröðum og er netfangið kast@kastguesthouse.is.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.
101 cm Miðfjarðará Erik Koberling 18. september 18.9.
104 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 18. september 18.9.
101 cm Víðidalsá Hörður Sigmarsson 15. september 15.9.

Skoða meira