Við birtum sögu í gær af laxi sem veiddist í klakveiði í Miðfjarðará og var nokkur vissa fyrir því að þessi fiskur hefði veiðst viku áður en þá sloppið út um gat á háf veiðimanna. Nú hefur heldur betur bæst við þessa sögu.
Ársæll Þór Bjarnason hafði samband við Sporðaköst eftir að fréttin um 102 sentímetra hænginn birtist í gær og benti á að þetta væri sami lax og hann hefði veitt í opnun. Eftir að hafa legið yfir myndunum má glögglega sjá að þetta er sami fiskurinn.
„Doppusetningin á hausnum á honum er afgerandi og doppurnar eru sambærilegar við fingraför þar sem hver og einn fiskur er með sínar sérstöku doppur. Þegar ég veiddi hann í opnuninni mældist hann 98 sentímetrar og var þá nýgenginn,“ sagði Ársæll í samtali við Sporðaköst.
Við birtum hér báðar myndirnar svo fólk geti sjálft lagt mat á þetta. Til að bera fiskana saman er rétt að horfa á svörtu doppurnar á hausnum á nýgengna laxinum og bera þær saman við klakfiskinn.
Eftir að laxinn gengur í fersk vatn breytist útlit hans og neðri skolturinn gengur fram og krókurinn stækkar og þykknar.
Hér munar fjórum sentímetrum frá því að laxinn gekk. Ársæll veiddi þennan fallega vorlax í Austurá, rétt fyrir ofan veiðistaðinn Kerlingu. Í vor tók hann Sunray en undir lok veiðitímans var hann kominn lengst upp í Austurá og var sett í hann á Dimmblá tvíkrækju númer fjórtán. Eins og fyrr segir slapp hann þá úr háfnum og veiddist svo í klakveiði viku síðar og var settur í kistu.