Búast við stærsta hnúðlaxaári sögunnar

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Guðni er hér við rafveiðar …
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Guðni er hér við rafveiðar á seiðum. Ljósmynd/Aðsend

Sumarið 2017 veiddust um fimmtíu hnúðlaxar í ám á Íslandi. Sumarið 2019 veiddust ríflega 230 slíkir. Í ár má búast við enn meiri veiði á þessari framandi tegund og það sem meira er, stofninn virðist í veldisvexti og erfðabreytingar benda til þess að hnúðlaxinn sé að aðlagast veru í Atlantshafi.

Sporðaköst leituðu til Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra ferskvatnssviðs hjá Hafrannsóknastofnun, og spurðu hvort von væri á fjölgun hnúðlax í sumar, að hans mati.

„Já, við búumst við aukningu á göngum hnúðlax nú á oddaári. Það hefur verið veldisvöxtur í þeim stofni og komið í ljós í erfðarannsóknum að það hafa orðið breytingar á erfðaefni oddaársstofnsins sem ekki hafa komið frá í jafnaárinu a.m.k. enn sem komið er. Þær breytingar eru taldar til merkis um að stofninn sé að aðlagast lífi í Atlantshafi,“ sagði Guðni í samtali við Sporðaköst.

Hnúðlax er af tegund Kyrrahafslaxa sem fluttir voru frá Kamtsjatka og sleppt til hafbeitar á Kólaskaga og við Hvítahaf í Rússlandi. Hann segir reynslu Norðmanna vera á þá leið að fyrst hafi þeir verið að sjá tugi fiska í ánum, svo hafi þeir farið í hundruð og loks í þúsundir.

Veiðimaður með hnúðlax við veiðihúsið í Sandá í Þistilfirði, sumarið …
Veiðimaður með hnúðlax við veiðihúsið í Sandá í Þistilfirði, sumarið 2017. SHS


Við fengum tugi 2017 og hundruð 2019. Býstu við þúsundum í sumar?

„Auðvitað er alltaf erfitt að spá um svona hluti, en það kæmi mér ekki á óvart að við sæjum mikla fjölgun og veiddir fiskar myndu hlaupa á hundruðum.“  Það fer svo eftir veiðihlutfallinu hversu margir fiskar verða eftir í ánum til hrygningar. 

 

 

Er stofnunin að rannsaka hnúðlaxinn og útbreiðslu hans sérstaklega? 

„Við höfum ekki fundið seiði hnúðlaxa. Það er erfitt að finna þau þegar þau eru fá og svo er ekki vitað með vissu hvar eða hvenær á að leita. Seiði hnúðlaxa dvelja stuttan tíma í ánum frá klaki þar til þau ganga til sjávar. Þau eru helst veidd í háfa á vorin þegar þau ganga til sjávar þar sem þau eru smá.

Við myndum gjarnan vilja hafa meiri tíma og fjármuni til að rannsaka hnúðlaxinn. Erum með umsókn í sjóði en ekki er komin niðurstaða um fjárstyrk. Ekki síst er mikilvægt að vita hvort og þá hvaða áhrif hann hefur á þá stofna fiska sem fyrir eru. Það er hægt að gera ýmsar mælingar eins og að taka vatnssýni og mæla e-DNA (umhverfiserfðaefni) en með því er hægt að greina hvaða fisktegundir eru í viðkomandi á og þar með talið hnúðlax.“

Hnúðlaxapar og íslenskur (neðst) úr Eyjafjarðará. Snævarr Örn Georgsson veiddi …
Hnúðlaxapar og íslenskur (neðst) úr Eyjafjarðará. Snævarr Örn Georgsson veiddi þessa fiska 2019. Eitt einkenni sem hnúðlax hefur ólíkt bleikju eru doppur á sporði. Ljósmynd/Snævarr

Hvað geta veiðimenn og umsjónarmenn áa gert, ef eitthvað? 

„Það er afar mikilvægt að veiddir hnúðlaxar séu skráðir í veiðibækur. Því miður er ekki sér dálkur í þeim fyrir hnúðlax en það er sér skráningarkóði í rafrænu skráningunni. Einnig að vita hvar í ám hnúðlax veiðist, hversu langt upp þeir ganga og hvort gönguhindranir hafi áhrif til að hindra þá í göngu. Við skráningu þurfa veiðiréttarhafar, leigutakar og veiðimenn að vera samstíga. Einnig er líklegt að hnúðlax veiðist í ám sem ekki hafa reglulega veiðisókn og ekki reglulega veiðiskráningu og því einnig mikilvægt að þær upplýsingar geti skilað sér, til að fá sem bestar upplýsingar,“ sagði Guðni.

Hann segir að mögulega sé hnúðlax að ná hér uggafestu og geti þá jafnvel orðið nytjastofn nú eða geti hafi alvarlegar afleiðingar fyrir annaðhvort sjóbleikju eða sjóbirting. „Þetta vitum við einfaldlega ekki enn.“

Ef að hann er ekki að hrygna mikið hér, enn sem komið er, hvaðan er þessi fiskur þá að koma?

„Það eru orðnir stórir hrygningarstofnar í ám á Kólaskaga og í Norður-Noregi. Það var hnúðlaxadreif suður með allri vesturströnd Noregs bæði 2017 og 2019. Þessi dreif náði til Bretlandseyja og alveg til Spánar og Portúgal. Frá árinu 1960 hafa hnúðlaxar hér verið flækingar og komið fram í veiði af og til. Raunar er það svo með laxfiska að þeir eru eins konar landnámsfiskar og það eru alltaf einhverjir sem leita upp í tækifærisár og reyna að koma genum sínum áfram þar.“

Eins og sjá má á súluritinu hér að ofan er Austurland með flesta skráða veidda hnúðlaxa árið 2019. En mikil aukning varð í öllum landshlutum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira