Af stórfiskum úr Skaftá á nýju svæði

Örvar Óli, sem er þrautreyndur leiðsögumaður með 89 sentímetra birting …
Örvar Óli, sem er þrautreyndur leiðsögumaður með 89 sentímetra birting úr Ásgarðslandi í Skaftá. Þessi tók Iðu. Ljósmynd/BA

Svæðið Ásgarður í Skaftá við Kirkjubæjarklaustur, það rómaða sjóbirtingsveiðisvæði, gaf góða veiði í dag þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Veiðifélagið Fish Partner tók þetta tveggja stanga svæði á leigu í vor. Áður hafa landeigendur nýtt svæðið og jafnvel verið þar með netstubba sem nú heyra sögunni til.

Báðar stangir voru mannaðar í dag, en erfitt hefur verið um veiði á svæðinu sökum veður- og vatnsskilyrða. Svæðið er rétt neðan við ármót Tungulækjar og Skaftár og gengur því mikið af fiski um svæðið. Bæði er það Tungulækjarfiskur en einnig er mikið af sjóbirtingi sem fer um Skaftá sjálfa. Þeir feðgar Björgvin Arnaldsson og Örvar Óli Björgvinsson voru á annarri stönginni og setti Örvar Óli í fantafisk á Iðu um miðjan dag. „Þetta reyndist vera hörkubirtingur sem við mældum 89 sentímetra,“ sagði Örvar Óli í samtali við Sporðaköst.

Kristján Friðriksson með áttatíu sentímetra fisk sem tók Cats Whisker.
Kristján Friðriksson með áttatíu sentímetra fisk sem tók Cats Whisker. Ljósmynd/ÞP

Á hinni stönginni var fyrrverandi formaður Ármanna, Kristján Friðriksson, og kona hans Þórunn Pálmadóttir. Þau voru búin að landa tveimur fiskum; einum 80 sentímetra og 64 sentímetra. Báðir fiskarnir tóku Cats Whisker.

Björgvin Arnaldsson sagði í samtali við Sporðaköst að aðstæður hefðu verið erfiðar. Vindstrengur upp ána og kalsarigning.

Svæðið er ekta vorveiðisvæði en að sama skapi mikið lotterí eins og gjarnan er með vorveiði. Margir dagar hafa farið í súginn vegna veðurs þennan fyrsta kafla veiðitímabilsins, en veitt er til 1. júní á svæðinu.

Vitað er um tvo áttatíu plús birtinga á fyrsta degi veiðitímans og einn dagur gaf fimm fiska. Nú er svæðið væntanlega að komast á betra ról, eins og veiði dagsins gefur til kynna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira