Sunray og Frances í sérflokki í laxinum

Sunray Shadow er til í mörgum gerðum og þetta er …
Sunray Shadow er til í mörgum gerðum og þetta er ein af þeim vinsælli

Þegar skoðað er hvaða flugur gáfu flesta laxa í fyrra þá kemur í ljós að Sunray Shadow og Frances bera höfuð og herðar yfir aðrar flugur. Auðvitað eru báðar þessar flugur til í margvíslegum útgáfum, en það er ekki endilega skilgreint í bókunum veiðimanna.

Við skoðuðum þær ár sem skráðar eru á angling iQ veiðiappið en þar er margvíslegum upplýsingum haldið til haga varðandi þær ár sem eru þar með rafræna veiðibók. Við yfirferðina kemur strax í ljós að Sunray er sú flugu sem er í fyrsta sæti. Það á við um Norðurá, Selá, Laxá í Aðaldal, Víðidalsá og Straumfjarðará svo einhverjar séu nefndar.

Hér má sjá ýmsar útfærslur af Sunray túpum. Það sem …
Hér má sjá ýmsar útfærslur af Sunray túpum. Það sem einkennir þær þó allar er svartur yfirvængurinn og svo er búið að útbúa margs konar afbrigði. Ljósmynd/Veiðihornið

262 laxar voru bókaðir á Sunray í Norðurá í fyrra. Samtals gaf hún 1.431 lax sumarið 2021. Það lætur því nærri að átján prósent sumarveiðinnar hafi komið á Sunray. Hlutfallið var enn hærra í Selá í Vopnafirði. Af löxum sem þar veiddust voru ríflega 21% á Sunray. Hofsá var með töluvert aðra tölfræði. Sunray gaf innan við tíu prósent af laxinum í fyrra, en Frances útgáfur voru með um tuttugu prósent, eða 116 laxa af heildarveiði upp á 601 fisk.

Þetta er ný útfærsla og kallast tvöfaldur Frances. Enginn búkur …
Þetta er ný útfærsla og kallast tvöfaldur Frances. Enginn búkur er hnýttur aftan við keiluna, heldur eru tvær keilur settar saman. Útgáfur af Frances er býsna margar og ólíkar. Ljósmynd/Veiðihornið

Miðfjarðará sker sig aðeins úr. Af tæplega átján hundruð löxum voru 459 bókaðir á hitch. Það gerir hlutfall upp á ríflega 25%. Fjórði hver lax úr Miðfirði stökk sem sé á hitchið. Haugurinn er svo ábyrgur fyrir 194 löxum og Sunray gaf 139 laxa. 

Meira að segja „Big Laxá“ eða Laxá í Aðaldal gaf flesta fiska á Sunray. Þeir voru hins vegar aðeins 33. Ríflega fjórðungur laxa sem veiddust í Straumfjarðará tóku Sunray.

Aftur að Frances. Ef teknar eru saman svört og rauð útgáfa þá gáfu þær um fjórðung allrar veiði í Norðurá í sumar. Í Hofsá má sjá svipaða stöðu en þar veiddust um tuttugu prósent allra laxa á Frances, í ýmsum útgáfum.

Rauð og svört Frances eru algengastar en þær eru líka …
Rauð og svört Frances eru algengastar en þær eru líka til bleikar, hvítar, bláar, grænar og í enn fleiri litum. Ljósmynd/Veiðihornið

Af öðrum sterkum flugum er gaman að nefna að Green Brahan var víða ofarlega á lista og sömuleiðis Green But. Flugan Blámi sem við fjölluðum um á Sporðaköstum í sumar gaf líka flotta veiði í Selá, eða 49 laxa.

En fyrir þá sem eru farnir að spá í hvað vantar í laxaboxin þá er best að byrja á að skoða stöðuna á Sunray og Frances. En á móti kunna einhverjir að spyrja hvað hefðu þessir laxar tekið ef ekki væru til þessar tvær ágætu flugur? Laxinn getur jú bara tekið þá flugu sem veiðimaðurinn kastar hverju sinni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira