Vatnsgæði laxveiðiáa vöktuð í rauntíma

Tveir af þremur eigendum Vatnsgæða ehf. Sindri Bjarnar Davíðsson og …
Tveir af þremur eigendum Vatnsgæða ehf. Sindri Bjarnar Davíðsson og Steingrímur Sveinbjörnsson til hægri. Þeir ásamt Björgvini R. Þórhallssyni hönnuðu tækið sem nú er komið í gang í Laxá í Kjós. Ljósmynd/SBD

Fyrirtækið Vatnsgæði ehf hefur í samstarfi við erlenda aðila hannað og framleitt vatnsgæðamæli sem að sögn framleiðenda er bylting þegar kemur vöktun vatnsgæða í ám og á vatnasvæðum. Tilraunamælir var settur niður í Laxá í Kjós nýlega og veitir hann rauntíma upplýsingar um gæði vatnsins. Þá er ekki nema hálf sagan sögð því mælirinn skráir öll helstu mæligildi sem hafa áhrif á lífríkið í vatninu. Allt gerist þetta í rauntíma. Búnaðinum er hægt að koma fyrir hvar sem er. Hann þarf ekki utanaðkomandi rafmagn. Rafhlöður sem duga mánuðum saman knýja búnaðinn sem er afar orkusparneytinn.

Vatnsgæði ehf hannaði tækið en þýskir samstarfsaðilar smíðuðu hann. Þýska fyrirtækið er stórt og þekkt á þessu sviði og það gefur félaginu trausta og örugga fótfestu. Eigendur félagsins eru þeir Sindri Bjarnar Davíðsson vélfræðingur, Steingrímur Sveinbjörnsson, viðskiptafræðingur og Björgvin Rúnar Þórhallsson, rafmagnsverkfræðingur.

Haraldur Eiríksson, leigutaki og rekstraraðili Laxár í Kjós segir þetta algera undragræju. „Við vorum að prófa þetta í desember síðasta og þá fékk ég hringingu frá þeim að það væri frekar mikið af uppleystum efnum og efnasamböndum í vatninu. Það höfðu verið miklar rigningar og getgátur voru um að Esjan væri að skila síðustu menguninni frá gosinu á Reykjanesi.“

Mælirinn lætur ekki mikið yfir sér en er alsjáandi þegar …
Mælirinn lætur ekki mikið yfir sér en er alsjáandi þegar kemur að gæðum vatnsins. Hann mælir hitastig, þrýsting, sýrustig og efnainnihald svo eitthvað sé nefnt. Ljósmynd/HE

Haraldur segir að það verði einkar áhugavert að keyra saman upplýsingar um vatnsgæði og veiði eftir að veiðitíma lýkur. „Við getum þá mögulega séð hvað gerir það að verkum að fiskur verður tökuglaðari. Er það sýrustig vatnsins eða einhverjir aðrir þættir sem við mögulega þekkjum ekki? Mælirinn er staðsettur í hliðaránni Bugðu og maður er mjög spenntur að sjá hvernig þessar upplýsingar nýtast,“ sagði Haraldur í samtali við Sporðaköst.

Sindri Bjarnar Davíðsson er einn að þremenningunum sem standa að nýja vatnsgæðamælinum. Hann segist vera umhverfissinnaður veiðimaður. „Við getum í raun og veru mælt alla eiginleika vatnsins sem eru í boði. Þar erum við að tala um vatnshæðina, hitastig, sýrustig og getu vatnsins til að hreinsa sig og brjóta niður úrgangsefni. En þetta er mikið notað í fiskeldisiðnaði. Við mælum líka leiðni vatnsins og heildarstyrk uppleysts efna í ánni. Mælum einnig súrefnismagn í vatninu og ýmislegt fleira. Við fengum viðvörun um daginn frá mælinum og það var ábending um að áin væri í leysingarástandi. Málið var kannað  og rætt var við Halla Eiríks og þá kom í ljós að það var malargröftur ofar í ánni. Þannig að við sjáum allt svona og öll frávik. Það má segja í grunninn að þetta sé fullkomið vöktunarkerfi fyrir ána. Við sjáum vel allt sem gæti flokkast sem frávik.“

Sjáið þið ef til dæmis klór frá sundlaug fer út í ána?

„Við getum bætt við sérstökum klórmæli og þá hefðum við til dæmis getað séð strax þegar slysið í Varmá varð um árið.“

Ætti ekki að vera svona mælir í Elliðaánum?

„Svona mælir ætti að vera í öllum ám sem eru í einhverjum ræktunar og verndunar hugleiðingum fyrir lax. Við heyrum líka af miklum áhuga meðal þeirra sem eiga og hugsa um laxveiðiár.“

Mælinum komið fyrir í Bugðu, hliðará Laxár í Kjós. Haraldur …
Mælinum komið fyrir í Bugðu, hliðará Laxár í Kjós. Haraldur Eiríksson leigutaki segir þetta mikið undratæki og hann getur fylgst grannt með öllum breytingum sem verða í ánni. Ljósmynd/SBD

Ljóst er að vatnsgæðamælir með þessa miklu getu er þarfaþing í margs konar iðnaði og ekki síður til að fylgjast með neysluvatni eða ástandi í fiskeldiskerjum í landeldi. Segja má að möguleikarnir séu endalausir. En fyrst horfa þeir þremenningar til laxveiðiáa og ekki bara hér á Íslandi heldur einnig í nágrannalöndum og hinum stóra heimi. Sú markaðshilla er stærri en margan grunar og Sindri segir að þetta sé vonandi þeirra leið inn á þann stóra og vaxandi markað sem eru mælingar á gæði umhverfis.

Mikil umræða hefur verið upp á síðkastið í Englandi og Skotlandi um vatnsgæði og mikla mengun í ám sem eru heimili laxfiska. Oft er erfitt að sanna ef skólpi eða einhvers konar úrgangi hefur verið sturtað í á. Það gerist iðulega með þeim hætti að menn verða varir við fiskadauða en upptökin kunna að vera óljós. Slíkur mælir tilkynnir strax um breytingar á vatninu.

„Sumarið í sumar er ofurlítil tilraunastarfsemi í gangi. Við erum að hanna vefgáttina fyrir hugbúnaðinn, þar sem hægt verður að sjá allar þessar upplýsingar í rauntíma og hvaða breytingar eiga sér stað hverju sinni. Þar er hugmyndin að þróa með hvaða hætti upplýsingar berast annars vegar til veiðimanna og hins vegar til þeirra sem hafa umsjón með ánni. Við stefnum að því að kynna þetta verkefni fyrir leigutökum og landeigendum á Íslandi strax núna á sumarmánuðum.“

Sindri viðurkennir líka að sem veiðimaður vonast hann eftir svörum sem skýri út af hverju suma daga veiðist mjög vel en aðra ekki neitt. Hann telur að þessi búnaður geti í það minnsta gefið auknar líkur á skýringum. „Við erum að vonast til þess að mælingar af þessum toga færi okkur upplýsingar um það hvað í vatninu er að hafa áhrif á fiskinn. Hvort sem það eru seiði eða tökugleði í fullvöxnum fiski. Þetta byggir að hluta til á því að safna gögnum til langs tíma og lesa þá sífellt meira í þær upplýsingar. Þá væntanlega sjáum við einhverjar breytur sem hafa áhrif,“ segir Sindri.

Mælirinn sendir sífellt upplýsingar og eru þau gögn svo birt til upplýsinga fyrir leikmenn í formi línurits eða með þeim hætti sem óskað er eftir. „Þetta kemur allt bara í símann hjá manni, jafn óðum,“ segir Halli.

Draumurinn hjá Sindra og félögum er að viðmótið á þessu verði með þeim hætti að túlkaðar upplýsingar birtist á skjá í veiðihúsi viðkomandi veiðisvæðis og þar geti veiðimenn séð nákvæmlega yfir morgunmatnum hver breytingin hefur orðið og hver staðan er. Þess á milli hafa svo eigendur og leigutakar aðgang að upplýsingum allt árið.

„Ég get séð ef einhver er að taka möl úr ánni eða hvort aukning sem verður á vatni, er snjóbráð, sem er kalt og súrefnissnautt vatn, eða rigningarvatn sem eykur líkur á veiði í ánni,“ segir Haraldur Eiríksson sem telur að þessi mælir geti verið „game changer“ eða hreinlega breytt leiknum þegar kemur að upplýsingagjöf til veiðimanna og leigutaka og landeigenda.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira