Fyrsti laxinn úr Kjarrá veiddist í Efra – Rauðabergi rétt um klukkan níu í morgun. Tveir laxar veiddust svo í Mið – Prinsessu. Veiði hófst í ánni í morgun og gætti töluverðrar eftirvæntingar eftir að menn höfðu séð töluvert af fiski í Þverá og aðstæður með þeim hætti að laxinn að greiða leið upp í Kjarrá.
Örn Kjartansson landaði 92 sentímetra hæng á Sunray Shadow með kón í Efra – Rauðabergi. Nokkru síðar lönduðu þeir fóstbræður Styrmir Elí Ingólfsson og Erik Koberling sitt hvorum laxinum í Mið – Prinsessu.
Í hádeginu lauk svo opnunarhollinu í Þverá og var landað níu löxum í hollinu sem stóð í tvo og hálfan dag. Einn þeir sem var við leiðsögn var reynsluboltinn Egill Kristinsson bóndi í Örnólfsdal. hann segist hafa séð allar útgáfur af opnun, allt frá því að enginn fiskur veiðist upp í hundrað laxa opnun í Kjarrá. „Fiskurinn er bara að taka flugið og hann er á fleygiferð. Kirkjustrengur hefur verið mjög líflegur og þar er greinilega grúbba af fiski og hann stoppar þar. Annars voru menn að fá fiska í Klettsfljótinu, Hólmataglinu rétt fyrir ofan Klapparhylinn og Þórunnarhyl. Við vorum líka að missa fiska og reisa þá,“ sagði Egill í samtali við Sporðaköst, eftir að opnun var lokið.
Hann nefndi sérstaklega hvers vel stóri fiskurinn væri haldinn. „Ég lenti í því að mitt fólk landaði 91, 87, 78 og 89 sentímetra fiskum. Þessir tveir stærstu voru báðir hængar og alveg hnausþykkir. Þeir voru bara með fallegri fiskum sem ég hef séð.“
Hann segir að ekki hafi verið svona lífleg opnun síðustu ár. Þeir urðu varir við smálaxa í morgun og þeir fiskar sem þeir veiddu voru grálúsugir. Egill kann ekki skýringu á því hvað það boðar þegar smálaxinn mætir snemma.
„Við áttum alveg frábæran morgun í Kirkjustreng í morgun. Reistum átta sinnum fiska í yfirborðinu en þeir tóku ekki. Það var reyndar kalt í morgun og það getur verið skýring. Það er alveg æðisgengið vatn og við vorum með Brennuna inni í þessari opnun og þar eru aðstæður með þeim hætti að hann getur farið straujað í gegn og flýtt sér heim til sín.“
En ef þú með þína reynslu gefur stöðumat á þessa opnun?
„Maður segir nú alltaf að maður voni það besta en búi sig undir það versta og allt umfram það er bónus. En þetta lítur mjög vel út. Þessir stóru fiskar sem við vorum að veiða sýna okkur það að þeir hafa haft nóg að éta í sjónum. Svo vonar maður bara að þeir hafi verið nógu margir sem hafa lifað af. Við erum mjög spenntir og mjög sáttir við þessa byrjun, annað væri bara frekja og við vonum að þetta haldi bara áfram.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Richard Jewell | 9. ágúst 9.8. |