Fyrsti hundraðkallinn kominn á land

Pétur Óðinsson glímir við stórlaxinn í morgun. Lítið er til …
Pétur Óðinsson glímir við stórlaxinn í morgun. Lítið er til af myndum en ef við fáum betri myndir munum við birta þær. Hallfreður er enn að veiða en Pétur tók bara fyrri vaktina. Mætir svo aftur á morgun. Ljósmynd/Hallfreður

Fyrsti hundraðkallinn, eins og við köllum laxa 100 sentímetra og stærri, veiddist í dag. Hann er sennilega úr þeirri á sem fæstir áttu von á slíkri skepnu úr. Þetta var hængur, laus við lús en ægifagur eins og Pétur Óðinsson lýsir honum.

Laxinn veiddist á opnunarvaktinni í morgun í Laxá í Leirársveit. „Þetta var allt með mestu ólíkindum,“ sagði Pétur í samtali við Sporðaköst. Hann var á stöng með Hallfreði Vilhjálmssyni hálfbróður sínum. Það kom skyndilega upp á. „Ég átti ekki að mæta fyrr en á morgun, en það breyttist og ég fór upp eftir í dag. Þegar við komum að Sunnevufossi þá vildi ég að Halli byrjaði en hann sagðist þurfa að taka símann og sagði mér að fara. Ég hef veitt í Laxá frá árinu 1977 og alltaf veitt Sunnevufossinn bílmegin. Nú einhvern veginn fannst mér eðlilegra vegna straumlags að veiða hann hinu megin frá. Ég óð yfir og í öðru kasti fékk ég þessa rosalegu töku. Ég var búinn að vera með fiskinn í hálftíma áður en ég sá hann,“ upplýsti Pétur um viðureignina.

Eftir 45 mínútur hafðist að landa þessum stóra laxi og þeir bræður mældu hann í þrígang og ætluðu vart að trúa eigin augum. En hann stóð slétta 105 sentímetra. „Það var eins gott að ég fór vel yfir alla tauma í gær og hugsaði með mér að tuttugu punda taumur hlyti að duga,“ hló Pétur.

Stærsti lax sem hefur komið á stöngina hjá honum er 19 punda lax og hann man ekki eftir svona stórum fiski úr Laxá í Leirársveit. Þessi tröllslegi hængur tók hálf tommu svarta Frances með kón.

Pétur var búinn að setja í annan lax og missa fyrr um morguninn. Þá hafði Haukur Geir Garðarsson landað fyrsta fiskinum. „það var held ég bara svona venjulegur fiskur,“ hló Pétur.

Sporðaköst óska Pétri til hamingju með stórlaxinn og vonandi verða þeir margir á hundraðkallalistanum okkar í sumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert