Viðkomubrestur í rjúpnastofninum

Rjúpa á Tjörnesi.
Rjúpa á Tjörnesi. Ólafur K. Nielssen

Viðkomubrestur virðist hafa orðið hjá rjúpunni í sumar. Talningar sem fram fóru á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands á NA – landi í lok júlí og og byrjun ágúst sýna að viðkoma rjúpunnar hefur ekki verið lakari í þeim landshluta frá því að mælingar hófust árið 1964. Talningar á Vesturlandi segja svipaða sögu og hefur viðkoma vart verið lakari frá því að mælingar hófust þar árið 1995. Ástandið þar er þó skárra en á NA – landi en samt lélegra en fyrri ár.

Mikil uppsveifla var staðfest í stofninum í vor en nú er ljóst að stofninn hefur lent í mótbyr og líklegasta skýringin er sú mikla vætutíð sem verið hefur. Staðan er ekki góð í þeim tveimur landshlutum þar sem rjúpan var vöktuð í sumar en ekki er ljóst hvernig ástandið er í öðrum landshlutum. Náttúrufræðistofnun hefur birt fréttatilkynningu vegna þessa og fylgir hún hér að neðan.

Rjúpa liggur á undir sumarbústað í Borgarfirði.
Rjúpa liggur á undir sumarbústað í Borgarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Rjúpan er mikilvægasta bráð íslenskra skotveiðimanna. Stofnstærð rjúpunnar tekur miklum breytingum á milli ára og þessar stofnbreytingar sjást skýrt í rjúpnaveiði. Uppistaðan í veiðinni eru ungfuglar og viðkoma rjúpunnar er því góður áviti á veiðihorfur. Frjósemi rjúpunnar er mikil, fuglarnir verða kynþroska ársgamlir, hver kvenfugl verpir að jafnaði um 11 eggjum og síðsumars eru vanalega 7–8 ungar á kvenfugl. Undantekning frá þessu er þegar gerir slagveðurstíð í júní og júlí.

Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar viðkomu rjúpunnar og það var gert á Vesturlandi og Norðausturlandi í lok júlí og byrjun ágúst nú í sumar. Í talningum á Vesturlandi fundust 34 kvenfuglar og 184 ungar. Hlutfall kvenfugla án unga var 13%, ungar á kvenfugl voru 5,41 og hlutfall unga í stofni 73%. Á Norðausturlandi fundust 64 kvenfuglar og 186 ungar. Hlutfall kvenfugla án unga var 44%, ungar á kvenfugl voru 2,9 og hlutfall unga var 59%.

Viðkoma rjúpunnar á Norðausturlandi hefur aldrei verið lakari frá því mælingar hófust árið 1964 (1. mynd). Hlutfall kvenfugla án unga var miklu hærra en nokkurn tímann áður og eins voru ungahópar þeirra mæðra sem enn héldu einhverjum ungum mun minni en oftast áður. Hér er rétt að benda á að kvenfuglar án unga hafa örugglega reynt varp en annað hvort afrækt á eggjatíma eða, sem líklegra er, að ungarnir hafa drepist frá þeim. Væntanlega ræður hér mestu sú vætutíð sem einkennt hefur sumarið á Norðausturlandi. Marktæk fylgni er á milli úrkomu og vindafars og viðkomu rjúpunnar. Á Vesturlandi var viðkoma rjúpunnar heldur skárri, en þetta var þó ein lakasta útkoman þar frá upphafi mælinga sumarið 1995. Miðað við þessi gögn er viðkomubrestur hjá rjúpum á Norðausturlandi 2022. Viðkoman á Vesturlandi er mun skárri en á Norðausturlandi en eigi að síður er hún léleg miðað við fyrri ár.“

Algerlega er óvíst hvaða áhrif þetta mun hafa á veiðifyrirkomulag í haust.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.
101 cm Víðidalsá Rögnvaldur Guðmundsson 12. september 12.9.
103 cm Ytri - Rangá Adrian Stauss 8. september 8.9.

Skoða meira