Bylgja af bjartsýni fer um veiðiheima

Sigurbjörg Ólafsdóttir og Erik Koberling brostu sínu breiðasta með þennan …
Sigurbjörg Ólafsdóttir og Erik Koberling brostu sínu breiðasta með þennan fallega nýrenning úr Myrkhyl efri. Eins og sést eru þau rennblaut en opnunarhollið landaði sex löxum á fyrstu vakt í erfiðum aðstæðum. Ljósmynd/Egill Ástráðsson

Bjartsýnisbylgja fer nú um allan veiðiheiminn. Þverá gaf sex laxa á opnunarvaktinni í morgun og auk þess veiddist einn í Brennu. Laxar veiddust á víð og dreif um ána, allt frá Kaðalstaðahyl upp í Efri Myrkhyl sem er einn af efstu veiðistöðunum í Þverá. Egill Ástráðsson, staðarhaldari i Þverá, var mjög sáttur við þessa niðurstöðu og sagði veiðina frábæra, sérstaklega þegar haft er í huga að áin var vaxandi í vatni í morgun og nokkur litur á henni. Það er alþekkt að veiði er oft erfiðari þegar vatnsmagn er að aukast.

Þessi opnunarvakt sem gefur virkilega góð fyrirheit kemur í kjölfar mjög góðrar opnunar í Norðurá sem gaf 36 laxa. Eitthvað sem er með því besta sem gerist þar. Opnunarhollið í Þverá skilaði tíu löxum á tveimur og hálfum degi í fyrra. Spennandi verður að sjá hvað gerist þegar vatn sjatnar í Þverá.

Snasabreiða, ofarlega í Þverá. Ísleifur Orri Arnarson og Gissur Karl …
Snasabreiða, ofarlega í Þverá. Ísleifur Orri Arnarson og Gissur Karl Vilhjálmsson með einn lúsugan. Vatnið er það gott að fiskurinn veður upp ána og fyrirstaða er lítil. Veit á gott fyrir Kjarrá á morgun. Ljósmynd/Egill Ástráðsson

Laxinn virðist mættur víðast hvar. Meira að segja í Selá í Vopnafirði sáu menn fyrstu laxana 4. júní og er það viku fyrr en almennt gerist. Stefán Hrafnsson hjá Six Rivers kíkti í fossinn ofan við veiðihús í fyrradag og sá þá tíu til fimmtán laxa grúppu.

Tifandi lax sást í gær í Laxá í Aðaldal og sama er að segja um Víðidalsá en þar sáust laxar í Kerinu og Bug í Fitjaá.

Í Soginu sást hann um mánaðamótin þegar stórlax stökk neðarlega á Bíldsfellssvæðinu. Silungsveiðimenn hafa misst laxa bæði í Ásgarði og einnig í Bíldsfelli og segja þá stóra. 

Það eru allar þessar fréttir sem skapa bjartsýnisbylgjuna en enginn þorir að tala mjög hátt um hana. Allir eru brenndir af síðustu fjórum árum sem hafa verið erfið. En það er staðreynd að stórstreymið núna í byrjun mánaðar skilaði víða fiski og í meira magni en menn hafa átt að venjast frá 2019.

Einn kom á land í Blöndu í morgun og veiðimenn sem eru þar við veiðar segjast hafa séð fisk á mörgum veiðistöðum en erfiðlega hefur gengið að fá hann til að taka.

Stefán Ákason í hinu fornfræga Klapparfljóti í morgun.
Stefán Ákason í hinu fornfræga Klapparfljóti í morgun. Ljósmynd/Egill Ástráðsson

En Þverá á daginn í dag og þar eru menn kampakátir eftir að hafa fengið svo flotta opnunarvakt. Margir reynsluboltar spáðu góðri júníveiði. Enginn hefur hins vegar spáð góðu laxveiðisumri í heild sinni og ekki ástæða til þess heldur. Þetta er ofurlítið eins og að vera stödd í knattspyrnuleik og heimaliðið skorar óvænt á sjöttu mínútu. Eftir eru 84 mínútur plús uppbótartími. En það er alltaf gott að fá mark.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira