Hrun í laxveiði í Svíþjóð

Aik Boyman með risalax úr ánni Mörrum í Svíþjóð, sumarið …
Aik Boyman með risalax úr ánni Mörrum í Svíþjóð, sumarið 2019. Hann mældist 118 sentímetrar og vigtaði 19,3 kíló. Áin Mörrum var með betra móti ef miðað við hvað gerðist í öðrum ám. Ljósmynd/Stefan Enevoldsen

Þær eru heldur ógæfulegar tölurnar sem birtar voru nýlega yfir laxveiði í sænskum ám sem falla í Eystrasaltið. Veiðin í sumar sem leið bókstaflega hrundi í samanburði við fyrri ár. Tölurnar ná yfir 21 laxveiðiá og er heildarveiðin 1.694 laxar á móti ríflega ellefu þúsund fiskum sumarið á undan.

Þetta er svo dramatískt fall að margir hafa orðið til að efast um að tölurnar sé réttar. Sumarið 2022 gáfu þessar ár 11.148 laxa. Sumarið 2021 var veiðin 11.826 laxar og 2020 voru skráðir 11.356 laxar. Síðasta sumar náði veiðin ekki sautján hundruð löxum.

Hér er um ræða ár sem að stærstum hluta fóstra Eystrasaltslax sem er sama tegund og Atlantshaflaxinn en hefur verið kenndur við heimasvæði sitt. Á ísöld lokaðist Eystrasaltið af og þessir laxar gátu því ekki gengið út úr heimahafinu. Þannig breyttust lifnaðarhættir hans og i dag alast seiði þessara laxa upp í Eystrasaltinu og það er þeirra fæðuslóð þar til hann hefur náð fullum vexti og gengur þá aftur upp í ána sem hann klaktist út í. Þessir laxar verða heldur stærri en sá lax sem kenndur er við Atlantshafið og kann það að vera vegna þess að ferðalagið er mun styttra og hann lifir fyrst og fremst á síld og síldarseiðum. Þó að þessir laxar séu kenndir við Eystrasaltið er tegundaheitið Salmo salar eins og hjá Atlantshafslaxi.

Peter Sundgren með 13,86 kílóa lax úr Mörrum í Svíþjóð. …
Peter Sundgren með 13,86 kílóa lax úr Mörrum í Svíþjóð. Þessi fiskur var ekki nema 102 sentímetrar. En spikfeitur. Forvitnilegt verður að sjá hvað gerist í framhaldinu á austurströnd Svíþjóðar. Ljósmynd/Aðsend

Allir fiskistofnar í Eystrasaltinu eða The Baltic Sea hafa átt undir högg að sækja á síðustu árum. Vorið 2021 var þorskkvóti skorinn niður um hvorki meira né minna en 88%. Þá hefur síld einnig átt undir högg að sækja, sem er helst fæðuuppspretta laxins.

En tölur fyrir veiðina síðasta sumar eru hreint út sagt sláandi. Hrunið er svo afgerandi. Tölur yfir veiði á sjóbirtingi eru ekki jafn svartar í samanburði milli ára en veiðin er niður um 55%. Í hóp á facebook þar sem veiðimenn frá ýmsum löndum voru að ræða þessa stöðu áttu menn varla til orð. Hér eru nokkur ummæli.

„Það svíður í augu að skoða þessar tölur.“

„Ég bara trúi þessu ekki. Eru þetta réttar tölur?“

„Þarna sést hvað veiða/sleppa er alls ekki að virka. Það er bara eitthvað djók.“

„Sjómönnum og togurum verður kennt um þetta eins og vanalega.“

„Hvað eru stjórnmálamenn að gera? Ekkert.“

Upphafsmaður færslunnar, sem deildi þessum upplýsingum er spurður um hvort hann hafi einhverjar skýringar. Hann segist helst horfa til þess að vísindamenn sögðu hrygningu síldar árið 2018 hafa algerlega misfarist í Eystrasaltinu og það væntanlega dregið úr fæðuframboði. En hann bendir líka á að skýringarnar kunni að vera feiri og margþættari.

Annar bendir á að þetta hafi verið eitt mesta rigningasumar í þessum hluta Svíþjóðar og telur að hluti af skýringunni sé að meira af áburði hafi leyst upp og skilað sér út í árnar og haft alvarleg áhrif.

Sá þriðji fullyrðir að hitastig sjávar á þessum slóðum hafi hækkað og það kunni að vera skýring.

Samkvæmt upplýsingum sem Sporðaköst hafa aflað sér er skráning í þessum laxveiðiám sem taldar eru upp, ekki mjög nákvæm. En þar hefur ekki orðið nein breyting undanfarin ár þannig að samanburður milli ára ætti að vera marktækur. Sumarveiðin í sumar í þessum ám er niður um 80 – 90% miðað við síðustu þrjú ár á undan.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert