Tengslanet Um sextíu konur úr stjórnunarstöðum í stofnunum og einkafyrirtækjum komu saman í Duushúsum. Hér eru á fremsta bekk þær Sigríður Jóna Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi og Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri.
Tengslanet Um sextíu konur úr stjórnunarstöðum í stofnunum og einkafyrirtækjum komu saman í Duushúsum. Hér eru á fremsta bekk þær Sigríður Jóna Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi og Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Reykjanesbær | Konur í stjórnunar- og áhrifastöðum á Suðurnesjum lýsa sig reiðubúnar til að takast á hendur störf í stjórnum fyrirtækja og samtaka. Kemur það fram í ályktun ráðstefnunnar Konur - aukin áhrif á vinnumarkaði sem efnt var til í Reykjanesbæ.

Reykjanesbær | Konur í stjórnunar- og áhrifastöðum á Suðurnesjum lýsa sig reiðubúnar til að takast á hendur störf í stjórnum fyrirtækja og samtaka. Kemur það fram í ályktun ráðstefnunnar Konur - aukin áhrif á vinnumarkaði sem efnt var til í Reykjanesbæ. Þar var tekið undir gagnrýni á það hversu fáar konur eru í stjórnum fyrirtækja og samtaka, ekki síst lífeyrissjóða.

Ráðstefnan var haldin að frumkvæði nokkurra kvenna á Suðurnesjum. "Hugmyndin kom frá einni úr hópnum, eftir að hún las bókina Undir glerþakinu. Karlmenn eru duglegir að búa til sitt tengslanet og það hjálpar þeim að ná frama. Það þarf að vita eitthvað um viðkomandi til að mæla með honum í nefnd eða stöðu. Hugmynd okkar var að búa til tengslanet fyrir konur og um leið að styrkja þær til að koma á slíkum tengslum við karla. Nota þannig aðferðir karlanna til að ná árangri," segir Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar. Hún sat í undirbúningshópnum ásamt Unu Steinsdóttur, útibússtjóra Íslandsbanka og Huldu Björk Þorkelsdóttur, forstöðumanni Bókasafns Reykjanesbæjar. Þær fengu Guðbjörgu Jóhannsdóttur, atvinnuráðgjafa Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, til að annast framkvæmd ráðstefnunnar og halda utan um tengslanetið.

Konum í stjórnunar- og áhrifastöðum á Suðurnesjum var sérstaklega boðið til ráðstefnunnar sem var opin öllum. Svafa Grönfeldt, lektor við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs hjá Actavis, Kristín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri fjárstýringar hjá KB banka, og Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands, fluttu erindi. "Mér fannst ráðstefnan takast vel. Fyrirlestrarnir voru ólíkir en allir mjög áhugaverðir enda eru þetta allt konur sem hafa náð upp úr glerþakinu," segir Hjördís.

Konur standi saman

Á ráðstefnunni var stigið fyrsta skrefið til að koma upp tengslaneti kvenna í stjórnunar- og áhrifastöðum á Suðurnesjum. Guðbjörg mun halda utan um það. Það verður ræktað með tölvupóstsendingum og áframhaldandi fundum og jafnvel námskeiðum. "Reynslan sýnir að karlar hafa verið duglegri við að rækta tengslin en konur," segir Guðbjörg. Hún vísar til umræðna að undanförnu um litla þátttöku kvenna í stjórnum fyrirtækja og segir að ein ástæða þess sé að tengslanetið hafi ekki virkað hjá konum og því sé verið að byggja það upp. "Ráðstefnan var fyrsta skrefið. Hún tókst mjög vel. Við sjáum það fyrir okkur að eftir eitt til tvö ár verði slík ráðstefna haldin með báðum kynjum. Þar gætum við rætt saman og fundið sameiginlegan ávinning af því að styrkja samvinnu kynjanna," segir Guðbjörg.

Hjördís vonast til að unnt verði að halda námskeið eða fræðslufundi í framhaldi af ráðstefnunni, til þess að styrkja konur í viðleitni þeirra til að ná frama. "Vonandi leiðir þetta til þess að konur efli tengsl sín í milli og standi saman þegar á þarf að halda," segir hún.

Hlutfall kvenna síst betra

Athugun sem Guðbjörg gerði fyrir ráðstefnuna sýnir að hlutur kvenna er rýr í æðstu stjórnunarstöðum á Suðurnesjum sem og í stjórnum fyrirtækja og sjóða. Telur Guðbjörg að hlutfallið sé ekki betra en á landsvísu, jafnvel frekar rýrara ef eitthvað er. Hins vegar er hlutur kvenna betri í daglegri stjórnun og í sumum fyrirtækja er hlutfall kynja tiltölulega jafnt.

Í ályktun sem samþykkt var í lok ráðstefnunnar er tekið undir málflutning forystukvenna ýmissa starfsstétta sem hafa að undanförnu gagnrýnt hversu fáar konur eru í stjórnum fyrirtækja og samtaka, einkum lífeyrissjóða. Fundurinn krefst þess að konum verði þegar fjölgað í stjórnum lífeyrissjóðanna, í samræmi við fjölda kvenna í viðkomandi sjóðum. Fram kom að þær sextíu konur sem sóttu ráðstefnuna eru reiðubúnar að takast á stjórnunarstörf í fyrirtækjum og samtökum, þar sem reynsla þeirra og þekking gæti nýst. Í framhaldi af þessu vakti Guðbjörg athygli á því að hún hefði lista yfir konurnar sem voru á ráðstefnunni og væri fyrirtækjum velkomið að leita eftir upplýsingum hjá sér.