jkjkjkjkjkjkjkjkjk
jkjkjkjkjkjkjkjkjk — Reuters
DAVÍÐ Skírnisson, 26 ára maður af íslenskum ættum, sem starfað hefur sem hjúkrunarfræðingur í Noregi, tók sér frí í vinnunni eftir hamfarirnar í Asíu í lok síðasta árs, seldi hluta af eigum sínum og hélt í byrjun janúar til eyjunnar Súmötru í Indónesíu...

DAVÍÐ Skírnisson, 26 ára maður af íslenskum ættum, sem starfað hefur sem hjúkrunarfræðingur í Noregi, tók sér frí í vinnunni eftir hamfarirnar í Asíu í lok síðasta árs, seldi hluta af eigum sínum og hélt í byrjun janúar til eyjunnar Súmötru í Indónesíu til að hjálpa til við hjálparstarf.

Þetta er dæmigert fyrir ungan hugsjónarmann, segir Skírnir Garðarsson, faðir Davíðs, sem viðurkennir að í fyrstu hafi sér ekki litist of vel á þessa ferð sonarins. "Ég hef aldrei verið almennilega sáttur við þetta, en er eiginlega kominn á þá skoðun núna að hann sé mun betur í stakk búinn til að takast á við svona en ég gerði mér grein fyrir."

Þessi eins manns hjálparsamtök stækkuðu fljótt, Davíð mælti sér mót við Bandaríkjamann sem hann þekkir í Indónesíu, og fljótlega bættust í hópinn þrír aðrir einstaklingar sem ekki þekktust áður en þeir hittust á Súmötru, karl og kona frá Noregi og kona frá Malasíu, sem öll voru á svæðinu á svipuðum forsendum og Davíð; að láta gott af sér leiða fyrir þá sem höfðu orðið illa úti í hamförunum. Saman stofnaði þetta fólk samtökin Tsunami Relief Action og hefur starfað við ýmiskonar hjálparstarf síðan.

Þrír úr hópnum hafa bakgrunn tengdan hjúkrun, og segir Skírnir að þessi reynsla nýtist greinilega vel. Hópurinn býr í tjöldum og hefur m.a. dreift lyfjum og öðrum hjálpargögnum til þeirra sem á þurfa að halda. Leigðir hafa verið bílar sem eru merktir samtökunum til að komast um eyjuna, og segir Skírnir að það hafi verið gert svo öllum sé ljóst að hér sé um mannúðarstarf að ræða, enda hafi borgarastyrjöld geisað á svæðinu og því mikilvægt að tryggja öryggi sitt eftir fremsta megni.

Allir vinna kauplaust

Hópurinn skiptir með sér verkum eins og hægt er, Davíð og aðrir sem hafa reynslu til að deila út lyfjum og aðstoða slasaða hafa gert það eftir föngum, þó að þeir hafi líka þurft að taka til hendinni við að safna saman líkum á svæðum þar sem þau mál voru skammt á veg komin. Hópurinn hefur einnig ráðið innfædda í launaða vinnu við að aðstoða við uppbygginguna.

Davíð hefur oft rætt um að fé sem veitt er til stórra hjálparsamtaka fari í of miklum mæli í uppihald og kostnað vegna starfsmanna, og segir Skírnir að þetta sé hans leið til þess að láta gott af sér leiða, að fara á staðinn og vinna sjálfur kauplaust. Allir í hópnum hafa unnið að því að fjármagna starfsemina, fé hefur verið safnað hjá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum í Noregi og víðar, auk þess sem fólkið hefur selt eigur sínar.

Davíð hefur ferðast aðeins um Asíu, og þekkir því aðstæður að einhverju leyti, segir Skírnir. "Þeir voru nú einna fyrstir þangað og unnu heilmikið dagana áður en stóru hjálparsamtökin náðu að koma inn á þessi svæði. Það hefur verið borgarastyrjöld á svæðinu og það verið fremur lokað."