Íslendingar mega menga 60% meira 2008-2012 en þeir gerðu árið 1990.
Íslendingar mega menga 60% meira 2008-2012 en þeir gerðu árið 1990. — Morgunblaðið/Ómar
Á morgun, rúmlega sjö árum eftir undirritun, tekur Kyoto-bókunin við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna formlega gildi. Rúnar Pálmason kannaði hvaða áhrif það hefur á almenning.

Í sem stystu máli snýst Kyoto-bókunin um að ríki sem að henni standa skuldbinda sig til að halda útblæstri eða losun á gróðurhúsalofttegundum á árunum 2008-2012 innan þeirra marka sem hann var árið 1990. Frá þessu eru þó undantekningar eins og Íslendingar vita kannski betur en margar þjóðir aðrar.

Bókunin öðlast formlega gildi á morgun, en mun almenningur hér á landi verða var við einhverjar breytingar í kjölfarið? Það er hæpið og raunar virðist Kyoto-bókunin hafa takmörkuð áhrif á Íslendinga yfirleitt.

Kyoto-bókunin dregur nafn sitt af borginni Kyoto í Japan þar sem hún var undirrituð í desember 1997, m.a. af íslenskum stjórnvöldum. Almennt var ríkjum gert að draga úr útblæstri en undir lok samningaviðræðnanna var ákveðið að þremur ríkjum yrði leyft að auka útblástur. Ísland fékk að auka útblásturinn mest, eða um 10%, Ástralía um 8% og Noregur um 1%. Þar sem til stóð að ráðast í miklar stóriðjuframkvæmdir hér á landi var þó þegar ljóst að útblástursaukningin sem samið var um var ekki nægjanleg fyrir Íslendinga.

Samningaviðræður héldu því áfram og með harðfylgi tókst stjórnvöldum að fá hið svokallaða íslenska ákvæði samþykkt en með því fékk Ísland leyfi til að auka útblástur á koltvísýringi frá stóriðju um 1,6 milljónir tonna.

Getum blásið 16,8 tonnum

Kyoto-bókunin tekur til sex gróðurhúsalofttegunda og af þeim er koltvísýringur algengust. Hinar lofttegundirnar eru síðan umreiknaðar í koltvísýringsígildi. 10% aukningin sem samið var um árið 1997 tekur til allra lofttegundanna en íslenska ákvæðið aðeins til koltvísýrings.

Árið 1990 var útblástur Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum rúmlega 3,3 milljónir tonna. Verði allar heimildir Íslendinga til að auka útblásturinn nýttar geta Íslendingar blásið út um 5,2 milljónum tonna á ári á árunum 2008-2012. Útblásturinn getur sem sagt aukist um 60% og þá verður losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi 16,8 tonn á íbúa. Til samanburðar var útblásturinn (árið 2000) 7,8 tonn á íbúa í Svíþjóð, 12 tonn á íbúa í Þýskalandi, 17,7 tonn á hvern Íra og 24,7 tonn á hvern Bandaríkjamann en Bandaríkin, sem menga mest allra ríkja heims, eru reyndar ekki aðilar að Kyoto-bókuninni.

Kvótakóngar framtíðarinnar?

Fyrsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar er 2008-2012. Næsta skuldbindingartímabil er 2013-2017 en samningaviðræður vegna þess eru ekki hafnar. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu er þegar búið að eyrnamerkja tonnin í íslenska ákvæðinu þannig að þau ganga til álvers Alcoa á Reyðarfirði annars vegar og hinsvegar til Alcan og Norðuráls vegna hugsanlegra stækkana í Straumsvík og á Grundartanga.

Vilji Íslendingar auka enn við stóriðju sína á seinna tímabilinu, en menga þó ekki meira en bókunin kveður á um, standa þeir frammi fyrir nokkrum möguleikum; þeir geta samið um nýtt íslenskt ákvæði, þ.e. að Íslendingar geti aukið útblástur frá stóriðju, þeir geta dregið úr mengun frá öðrum geirum s.s. samgöngum eða sjávarútvegi og loks geta þeir keypt mengunarkvóta frá öðrum ríkjum. Síðastnefndi möguleikinn er ekki enn kominn til framkvæmda en búast má við líflegum viðskiptum á næstu árum og hefur Evrópusambandið þegar lagt drög að e.k. kvótamarkaði.

Mengunarkvótarnir verða til hjá ríkjum sem menguðu meira árið 1990 en fyrirsjáanlegt er að þau geri 2008-2012. Að þessu leyti er Rússland í góðri aðstöðu því frá árinu 1990 hefur fjölmörgum mengandi verksmiðjum þar í landi verið lokað en aðrar bættar og er talið að Rússar ráði yfir mengunarkvóta fyrir á áttunda hundrað milljarða króna. Þetta er raunar talin ástæðan fyrir því að Rússar ákváðu að fullgilda Kyoto-bókunina í október í fyrra. Þar sem Kyoto-bókunin þurfti staðfestingu 55 iðnríkja sem voru ábyrg fyrir 55% af losun gróðurhúsalofttegunda árið 1990 var samþykki Rússa nauðsynlegt til að hún tæki yfirleitt gildi.

Hugarfarsbreyting erfið

Á morgun, þremur mánuðum eftir að Rússar fullgiltu bókunina fyrir sitt leyti, tekur hún formlega gildi. Þann dag verður hádegisfundur um gildistökuna á Grand hóteli þar sem rætt verður um loftslagsbreytingar og framkvæmd Kyoto-bókunarinnar. Búast má við fjörlegum umræðum, en verður almenningur að öðru leyti var við að bókunin hafi tekið gildi?

"Í rauninni ekki," sagði Óttar Freyr Gíslason, deildarsérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, í viðtali við Morgunblaðið í gær. Hann benti á að stjórnvöld hafi árið 2002 ákveðið að grípa til ráðstafana til að Ísland nái markmiðum Kyoto-bókunarinnar og unnið hafi verið í samræmi við það síðan. Ekkert breytist í sjálfu sér við að bókunin taki formlega gildi.

Sú ráðstöfun sem almenningur verður helst var við varðar samgöngumál. Þegar hefur verið ákveðið að breyta skattlagningu á dísilbílum. Spurður um aðrar aðgerðir nefndi Óttar Freyr að hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu væri unnið að því að samræma umferðarljós þannig að síður myndist biðraðir. Þá væri brýnt að skipulag höfuðborgarsvæðisins miðaði að því að þétta byggð og auka þar með möguleika fólks á almenningssamgöngum.

Komið hefur fram að jeppar hafa aldrei selst betur en í fyrra og mengun frá bílum jókst um 26% í Reykjavík á árunum 1990-2002. Óttar Freyr sagði að erfitt væri að eiga við mengun frá samgöngum. "Þetta er vandamál hér eins og annars staðar. Samgönguhlutinn í þessum loftslagsmálum er mjög erfiður því hann krefst hugarfarsbreytinga," sagði hann. Verið er að endurskoða stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna Kyoto-bókunarinnar og að sögn Óttars Freys er verið að huga að fræðsluherferð til að fá Íslendinga til að huga meira að mengunarmálum.

Litlar byrðar

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, tók í svipaðan streng, almenningur yrði ekki mikið var við Kyoto-bókunina. "Út af fyrir sig þá leggur bókunin ekki miklar byrðar á okkar herðar. En væntanlega og vonandi munu stjórnvöld fylgja eftir þessum samþykktum með víðtækri fræðsluherferð um hvað þetta snýst um," sagði hann.

Stjórnvöld hefðu á hinn bóginn gert ýmis mistök, m.a. með því að heimila stærri bílvélar innan sömu tollflokka og breyta ekki reglum um innflutning á pallbílum sem nytu óeðlilegra fríðinda. Aðspurður sagði Árni að umræða um Kyoto-bókunina og útblástur gróðurhúsalofttegunda væri mun meiri í nágrannaríkjum okkar og þar væri umræða mun meiri og markvissari. Í flestum ríkjum færi þó minna fyrir raunverulegum aðgerðum, þó að þau væru yfirleitt lengra komin en Ísland.

Setji langtímamarkmið

Árni sagði brýnt að ríkisstjórnin setti sér langtímamarkmið um hvernig yrði dregið úr útblæstri á næstu árum líkt og Svíar, Bretar, Hollendingar og fleiri hefðu þegar gert. "En ef ég á að vera hreinskilinn við þig þá hefur afskaplega lítið verið gert, því miður. Höfuðástæðan er kannski sú að við fengum þessi 10%. Síðan held ég að menn hafi klappað á bakið á hver öðrum á bakið og sagst vera í svo góðum málum af því að við notum svo mikið af umhverfisvænum orkugjöfum. Staðreyndin er engu að síður sú að losun [gróðurhúsalofttegunda] á hvern íbúa hér er mjög há og yfir meðallagi OECD-ríkjanna," sagði Árni Finnsson.

"Ég kalla eftir einhverri áætlun frá ríkisstjórn Íslands sem skiptir einhverju máli."

runarp@mbl.is