Elona frá Úkraínu við frystingu í Ísfélaginu í Vestmannaeyjum.
Elona frá Úkraínu við frystingu í Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. — Morgunblaðið/Sigurgeir
HÆPIÐ er að loðnukvóti vertíðarinnar náist ef fram heldur sem horfir. Veiðarnar hafa fram til þessa gengið fremur illa, loðnan er dreifð og tíðarfarið óhagstætt.

HÆPIÐ er að loðnukvóti vertíðarinnar náist ef fram heldur sem horfir. Veiðarnar hafa fram til þessa gengið fremur illa, loðnan er dreifð og tíðarfarið óhagstætt. Loðnukvóti vertíðarinnar er nærri 781 þúsund tonn en aflinn er nú orðinn um 300 þúsund tonn, samkvæmt upplýsingum af vef Fiskistofu.

Þó talsvert af loðnu berist á land þessa dagana láta skipstjórar illa af veiðunum. Maron Björnsson, skipstjóri á Guðmundi Ólafi ÓF, segir tíðarfarið hafa verið afar óhagstætt alla vertíðina. Auk þess sé loðnan dreifð og því þurfi mikið að hafa fyrir fullferminu, allt upp í 10 til 12 köst.

Loðnuflotinn er nú að veiðum á Meðallandsbugt, skammt vestan Ingólfshöfða og segir Maron að ekkert bóli á svokallaðri seinni göngu, sem jafnan gengur upp á landgrunnið þegar líða tekur á vertíðina.

Stóriðja fyrir bæjarfélagið

Sveitarstjórnarmenn segja loðnuvertíðina skipta afar miklu máli fyrir bæjarfélögin því auknar tekjur fáist af útsvari og hafnargjöldum þar sem mikil vinna sé og tíðar landanir. Þá skapist tekjur af þjónustu við skipin og af verslun og viðskiptum við þau. Segir Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, að fiskvinnslan í bænum sé eins og stóriðja fyrir bæjarfélagið.