Þáttur Íslenskrar erfðagreiningar í að laða til Íslands vísindamenn í fremstu röð verður ekki dreginn í efa. Fyrirtækið hefur á átta og hálfu ári haslað sér völl í rannsóknum í erfðafræði með afgerandi hætti.

Þáttur Íslenskrar erfðagreiningar í að laða til Íslands vísindamenn í fremstu röð verður ekki dreginn í efa. Fyrirtækið hefur á átta og hálfu ári haslað sér völl í rannsóknum í erfðafræði með afgerandi hætti. Frá því að fyrirtækið var stofnað hafa um 100 greinar vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar verið birtar í alþjóðlegum, ritrýndum vísindatímaritum. Í slíkum tímaritum eru gerðar strangar kröfur og fara greinar í gegnum margar síur áður en þær eru teknar til birtingar. Staða Íslenskrar erfðagreiningar hefur ekki farið framhjá hinu alþjóðlega vísindasamfélagi og á undanförnum vikum hefur birst umfjöllun um rannsóknir á vegum fyrirtækisins, sem staðfestir það.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu á sunnudag er að finna umfjöllun um erfðakort ÍE yfir erfðamengi mannsins í febrúarhefti tímaritsins The Scientist . Þar er grein vísindamanna ÍE um erfðakortið, sem birtist í Nature Genetics sumarið 2002, sett í sérstakan flokk greina, sem aðrir vísindamenn hafa vitnað í 50 til 100 sinnum oftar en gert er að meðaltali í greinar á viðkomandi fræðasviði. Finna megi 262 tilvitnanir í greinina um erfðakort ÍE í öðrum vísindagreinum frá því að hún birtist. Höfundur greinarinnar í The Scientist , Josh P. Roberts, segir að erfðakort ÍE sé "enn talið grundvallartækið" við kortlagningu erfðabreytileika mannsins: "Eins og sakir standa eru gögn íslenska fyrirtækisins enn hið gullna viðmið, jafnt þeirra sem vinna að rannsóknum og gera erfðakort."

Þá hefur uppgötvun vísindamanna ÍE á um þriggja milljóna ára gamalli umhverfu í erfðamengi mannsins vakið athygli. Grein um uppgötvunina birtist í Nature Genetics og í febrúarhefti tímaritsins birtist leiðari þar sem þessari uppgötvun er líkt við klassískar vísindagreinar um uppgötvanir á sviði erfðafræði. Segja tveir spænskir sérfræðingar í tímaritinu að enginn vafi sé á að þessi grein muni leiða til kapphlaups meðal vísindamanna í rannsóknum á umhverfunni.

Íslensk erfðagreining hefur ekki aðeins verið afkastamikil á sviði erfðavísinda og lagt sitt af mörkum til grunnrannsókna. Fyrirtækið hefur einnig birt upplýsingar, sem það hafði getað haldið fyrir sig, og er erfðakortið dæmi um það. Fyrirtækið hefur þannig tryggt að þetta mikilvæga tæki til frekari rannsókna nýtist alþjóðlegu fræðasamfélagi í heild.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við Ómar Friðriksson í Morgunblaðinu á sunnudag að hann sé ekki í nokkrum vafa um að innan Íslenskrar erfðagreiningar séu margir sérfræðingar, sem séu í fremstu röð á sviði rannsókna í mannerfðafræði í heiminum: "Ég held að það hafi að nokkru dulist þessu samfélagi að hér innan fyrirtækisins erum við með ótrúlega hæfileikaríkt fólk, bæði Íslendinga og útlendinga. Ég er alveg viss um að hér innan fyrirtækisins starfa nokkrir heimsmeistarar á sínu sviði," segir Kári.

Það eru ugglaust orð að sönnu að margir hafa ekki gert sér grein fyrir því hversu framarlega Íslensk erfðagreining stendur. Sumarið 1996 hefðu fæstir trúað því að hægt yrði að koma á legg erfðavísindafyrirtæki í fremstu röð í Vatnsmýrinni. Framlag fyrirtækisins til íslensks vísindasamfélags er ómetanlegt. Í þeim efnum má ekki gleyma þeim áhrifum sem það hefur á vísindamenn framtíðarinnar, sem nú eru við nám, að hrærast í því umhverfi, sem myndast hefur við tilkomu ÍE. Ekki hefur alltaf ríkt lognmolla í kringum Íslenska erfðagreiningu, en starfsmenn fyrirtækisins hafa látið sér fátt um finnast þótt styr stæði um fyrirtækið og árangurinn af öflugu vísindastarfi þeirra lætur ekki á sér standa.