[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MARKMIÐIÐ með verkefninu Notandi spyr notanda - nýtt atvinnutækifæri geðsjúkra, var að veita geðsjúkum tækifæri til að hafa áhrif á geðheilbrigðisþjónustu og koma á gagnvirku sambandi milli notenda og þeirra sem veita hana.

MARKMIÐIÐ með verkefninu Notandi spyr notanda - nýtt atvinnutækifæri geðsjúkra, var að veita geðsjúkum tækifæri til að hafa áhrif á geðheilbrigðisþjónustu og koma á gagnvirku sambandi milli notenda og þeirra sem veita hana. Á sama tíma var unnt að skapa atvinnu fyrir geðsjúka og veita nemum tækifæri á að prófa í verki að vinna eftir hugmyndafræði sjálfseflingar sem eykur mann- og félagsauð, að sögn Hörpu Ýrar Erlendsdóttur, en hún og Valdís Brá Þorsteinsdóttir, nemar á 4. ári í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri, unnu verkefnið í samstarfi við starfshópinn Hugarafl, samstarfshóp geðsjúkra og iðjuþjálfa.

Viðtöl tekin við sjúklinga á þremur geðdeildum

Leiðbeinendur verkefnisins voru Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi og Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi geðdeilda LSH og lektor við Háskólann á Akureyri. Að sögn Hörpu Ýrar er hugmyndin fengin frá Þrændalögum í Noregi. Hugarafl tók viðtöl við sjúklinga á þremur geðdeildum LSH þar sem leitast var við að kanna hvað væri gott við þjónustuna og hvað mætti betur fara. Harpa Ýr segir að fram hafi komið ábendingar sem fólk hafði ekki endilega veitt athygli en skiptu notendur miklu máli. Í bæklingi sem gefinn var út og er birtur í heild sinni á heimasíðu Hugarafls, www.hugarafl.is, komu fram ýmsar ábendingar, allt frá litlum atriðum til stærri, sem notendur vildu sjá breytingar á. Könnunin var unnin á þremur mánuðum sl. sumar en sem dæmi fengu Norðmenn eitt ár í undirbúning.

Að sögn Hörpu Ýrar hefur verið unnið áfram með verkefnið. Sviðsstjórar geðsviðs hafa tekið verkefninu opnum örmum og strax sett gæðaráð í að skoða skýrsluna og koma með tillögur að umbótum. Fulltrúar Hugarafls hafa tekið þátt í því ferli. Að sögn HörpuÝrar er mikilvægt að halda gæðaeftiliti af þessum toga áfram því margföldunaráhrifin séu augljós. Auk þess sem það skili sér í auknum gæðum geðheilbrigðisþjónustunnar hafi það áhrif á bataferli einstaklinga sem taka þátt í verkefninu. Sem dæmi hafi nokkrir einstaklingar innan Hugarafls sem tóku þátt í könnuninni síðasta sumar nú þegar snúið aftur út á vinnumarkaðinn eða í skóla.