Fé í eyjabeit verður frjósamara.
Fé í eyjabeit verður frjósamara.
Vill kanna sauðfjárhald í eyjum víðar á landinu Sigríður Ásgeirsdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands, segir að náðst hafi góð niðurstaða varðandi féð í Hafnareyjum. "Þetta var samstillt átak og allt gekk í þessu tilviki upp.

Vill kanna sauðfjárhald í eyjum víðar á landinu

Sigríður Ásgeirsdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands, segir að náðst hafi góð niðurstaða varðandi féð í Hafnareyjum. "Þetta var samstillt átak og allt gekk í þessu tilviki upp." Hún sagði að nú yrðu málin könnuð sérstaklega í Vestmannaeyjum. "Það þarf að fylgja þessu eftir af fullum krafti, kanna hvernig ástandið er annars staðar."

Kindur ganga í eyjabeit á tveimur stöðum á landinu, í Breiðafjarðareyjum og Vestmannaeyjum en um er að ræða aldagamla hefð. Nú í vikunni var ákveðið að sækja níu kindur sem gengið hafa úti í Hafnareyjum á Breiðafirði og var það gert eftir að Dýraverndunarsamband Íslands krafðist þess í bréfi til umhverfisráðuneytis, að þær yrðu fluttar í land og þeim séð fyrir lögboðnu skjóli, fóðrun og umönnun. Sambandinu hafði áður borist ábending um að meðferð á ánum væri ábótavant.

Ólafur R. Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, sagði að á fundi um málið hefðu menn verið sammála um að setja þyrfti skýrari reglur um eyjabeit og betra eftirlit. "Við viljum fyrirbyggja að upp komi vandamál með því að hafa reglurnar skýrar," sagði hann en um málið munu fjalla

fulltrúar Bændasamtakanna, yfirdýralæknis og hagsmunaaðila. Þá verður á næstunni farið í eyjar og fé skoðað, samhliða vorskoðun búfjáreftirlitsmanna.

Umfang eyjabeitar er ekki mikið að sögn Ólafs, líklega nokkur hundruð kindur sem haldið er úti í eyjum, "en við viljum samt ná betra yfirliti yfir þetta og menn eru sammála um að eyjabeit yrði í framtíðinni að vera háð ákveðnum skilyrðum og eftirliti."

Ólafur sagði að eyjabeit lík og var í Hafnareyjum uppfyllti engan vegin þær kröfur sem líklegt væri að gerðar yrðu í framhaldinu.

Áður fyrr var mikil byggð í Breiðafjarðareyjum og eyjabeitin var ákveðið nýtingarform bænda, sem jafnan fylgdust vel með fé sínu. Nú hafa búskaparhættir breyst og þéttbýlisbúar teknir að stunda sauðfjárbúskap í smáum stíl sér til ánægju. Til er í dæminu að eigendur búfjár í eyjum t.d. í Breiðafirði búi á höfuðborgarsvæðinu og líti lítið sem ekkert til með fé sínu.

"Við vitum að hægt er að hafa þessa hluti í lagi og víðast hvar er það svo," sagði Ólafur.

Brynjar Hildibrandsson í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit rekur stórt fjárbú, um 600 kindur. Hann hefur um árabil haft fé í eyjum og sagði slíkt gamla hefð. Brynjar hafði ekki margt fé í eyjum í vetur, en sagðist jafnan taka fé sitt í land í febrúar til mars. "Ég set kindur í eyjar til að auka afurðirnar, ég fæ meiri afurðir af fé sem gengur í eyjunum," sagði Brynjar. Kindurnar fá fengieldi í eyjunum, aukið er við þær fóður fyrir fengitímann, "kindur sem ég set í eyjar verða frekar tvílembdar en hinar, þær fá sitt fengieldi í eyjunum, en þar er t.d. áburður af fugladriti, þetta er gósenland," sagði Brynjar. Benti einnig á að eyjarnar væru ekki allar eins, "eyja væri ekki bara eyja," eins og hann orðaði það. Hann sagðist velja hraustar kindur, sem þó væru ófrjósamari en aðrar í eyjarnar í því skyni að gera þær frjósamari. Brynjar sagði búskaparhætti vissulega hafa breyst mikið á liðnum árum, en áður var stundað að setja heimalninga og smærri lömb út í eyjar þar sem jafnan tók skemmri tíma en ella fyrir þau að stækka.

Áður björguðu menn sér einnig á heyleysisárum með því að nýta eyjarnar. Þá eru afföll fátíð í eyjum að sögn Brynjars, mun minni en uppi á landi að sumarlagi, enda væru eyjarnar valdar sérstaklega og þess gætt að setja kindur ekki út í eyjar þar sem mikil flæðihætta er. "Það þarf auðvitað að búa yfir ákveðinni kunnáttu varðandi nýtingu á eyjunum, hvaða eyjar henta til beitar og hverjar ekki."

Ólafur bendir á að í Hafnareyjum hafi verið fé sem ekki sé alið upp við þau skilyrði sem ríkja í eyjunum, en um var að ræða sláturfé sem alla sína tíð var haldið í húsi yfir veturinn og voru sumar ærnar að auki orðnar lélegar til gangs. Umskiptin hafi því verið mikil.

"Það skiptir máli hvort féð er alið upp við þau skilyrði sem eru í eyjunum, það er fráleitt að fara með gamalær út í eyjar, það er ekki réttlætanlegt," sagði Ólafur en Hafnareyjakindunum hefur verið fundinn góður staður í landi, þar verða þær settar í hús og á gjöf. Ólafur sagði að í langflestum tilvikum færi vel um það fé sem vant væri að ganga úti í eyjum, enda væri litið til með því og eins hefðu bændur í huga hversu margar kindur unnt væri að hafa á hverjum stað fyrir sig, eins færi vel á að skipuleggja beitartímann.

Þannig væri í flestum tilvikum vel að málum staðið.

"Við töldum þó rétt að minna á það á fundinum í vikunni að af og til fer eitthvað úrskeiðis," sagði Ólafur og nefndi í því sambandi að fyrir röskum áratug hefði mjög slæmt mál komið upp er varðaði hross. Þar voru hross látin ganga stöðugt á sama landi um langt skeið, ekkert gefið og skjól var lítið. Þrír menn voru í því máli dæmdir til greiðslu sektar vegna brota á lögum um dýravernd, en sannað þótti að hrossin sem gengu í Fremri-Langey hefðu ekki fengið fullnægjandi fóður.

maggath@mbl.is