Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari fær það hlutverk að stjórna mönnum sínum í leikjum gegn Hvít-Rússum.
Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari fær það hlutverk að stjórna mönnum sínum í leikjum gegn Hvít-Rússum. — Morgunblaðið/RAX
"MÉR líst nú bara þokkalega á þennan drátt," sagði Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari í handknattleik við Morgunblaðið þegar leitað var eftir viðbrögðum hans við drættinum í undankeppni Evrópumóts landsliða.

"MÉR líst nú bara þokkalega á þennan drátt," sagði Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari í handknattleik við Morgunblaðið þegar leitað var eftir viðbrögðum hans við drættinum í undankeppni Evrópumóts landsliða. Þar drógust Íslendingar gegn Hvít-Rússum og mæta þeim í tveimur einvígisleikjum um að komast í úrslitakeppni EM sem fram fer í Sviss á næsta ári.

Við gátum fengið verri drátt en þennan og ég er feginn að sleppa við að mæta Pólverjum, Ungverjum og Portúgölum. Nú tekur við að afla sér upplýsinga um Hvít-Rússana. Ég veit svo sem ekkert hvar þeir standa en á pappírunum eigum við að vera með sterkara lið. Við verðum hins vegar að mæta vel undirbúnir til þessara leikja og við förum af fullri alvöru í þetta verkefni. Við tökum á móti Svíunum viku áður en við mætum Hvít-Rússunum og það verður góður undirbúningur," sagði Viggó.

Íslendingar og Hvít-Rússar mættust einnig í einvígisleikjum um sæti í lokakeppninni sem haldin var í Svíþjóð 2002. Íslendingar unnu fyrri leikinn í Minsk með sjö marka mun, 30:23, en töpuðu þeim síðari í Laugardalshöll, 27:26.

Ísland á heimaleikinn á undan sem fram fer 11. eða 12. júní og viku síðar verður spilað í Hvíta-Rússlandi.

Alls leika 20 þjóðir um 10 sæti í lokakeppninni í Sviss sem fram fer 26. janúar til 5. febrúar á næsta ári. Sex þjóðir hafa þegar tryggt sér keppnisréttinn, Þýskaland, Slóvenía, Danmörk, Króatía og Rússland, sem urðu í fimm efstu sætunum á EM í Slóveníu í fyrra, ásamt gestgjöfunum í Sviss.