Kópavogur | Það sem átti að verða fimm dagar við bryggju urðu að þremur árum hjá eikarbátnum Stormi SH-333 sem fékk leyfi til að leggjast við bryggju í Kópavogi fyrir tæpum þremur árum til viðgerða, og hefur legið þar sem fastast síðan.
Jóhannes Guðmundsson, hafnarvörður í Kópavogshöfn, segir að hér sé um þekkt vandamál að ræða hjá öllum höfnum landsins, "vandræðapungar" liggi gjarnan lengi, taki pláss og safni upp hafnargjöldum.
"Hann fékk að koma hérna inn á höfnina, það var á miðvikudegi fyrir tæplega þremur árum síðan, með því skilyrði að hann lofaði að vera farinn á sunnudeginum. Alveg hundrað prósent, tíu puttar upp til guðs. Svo á laugardeginum fékk ég símhringingu um að báturinn væri að sökkva við bryggjuna. Þar með var kominn sjór upp á vélar og rafala og allt í fári. Síðan fór ekkert í gang, en af því við urðum að fá plássið til að taka á móti fraktskipi þá var hann dreginn þangað sem hann er núna, og reynt að hreinsa vélina."
Í framhaldinu lentu eigendur bátsins í erfiðleikum og báturinn var seldur á uppboði, hann var við bryggjuna um veturinn umhirðulaus, og þá frostsprakk í honum blokkin. Því er ljóst að báturinn þarfnast talsverðra viðgerða áður en hann siglir aftur.