12. mars 2005 | Staksteinar | 327 orð | 1 mynd

Hvað ef konur eru of fáar?

Karlar, allt of margir karlar.
Karlar, allt of margir karlar.
Hvað gerist þegar 100 milljón konur fæðast ekki? Þessarar spurningar spyr Petra Steinberger í dálki í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung á þriðjudag. Tilefnið er að í ákveðnum löndum er mun meira um að fóstrum sé eytt ef stúlka er í vændum en drengur.
Hvað gerist þegar 100 milljón konur fæðast ekki? Þessarar spurningar spyr Petra Steinberger í dálki í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung á þriðjudag. Tilefnið er að í ákveðnum löndum er mun meira um að fóstrum sé eytt ef stúlka er í vændum en drengur. Nefnir höfundur sérstaklega Kína, Indland og Pakistan með þeim orðum að þetta geti haft "geigvænlegar afleiðingar á viðkomandi þjóðfélög og með óbeinum hætti á allan heiminn".

Í dálknum segir: "Samkvæmt manntali ársins 2000 er staðan nú sú í Kína að á móti hverjum 120 drengjum fæðast 100 stúlkur. Einnig á Indlandi eykst hlutfallsmunurinn milli kynjanna og hefur farið úr 105,8 drengjum upp í 107,9 á undanförnum tíu árum. Talið er að árlega sé á milli þremur og fimm milljónum stúlknafóstra eytt á Indlandi; könnun á læknamiðstöð í Bombay sýndi fram á að af 8.000 fóstureyðingum hefðu 7.999 verið stúlknafóstur. Hlutföllin í einstökum landshlutum eru enn meira afgerandi - sums staðar í héruðunum Rajasthan og Bihar fæðast aðeins 60 stúlkur á móti hverjum 100 drengjum. Í sumum héruðum Kína eins og Hainan fæðast um 134 drengir á móti hverjum 100 stúlkum og bilið breikkar."

Steinberger bendir á að fyrir vikið muni hátt á aðra milljón manna vaxa úr grasi í þessum löndum án þess að geta reiknað með að geta nokkurn tímann eignast fjölskyldu og líkir þeim við "dauðar greinar". Félagsfræðingar haldi því fram að þjóðfélög, sem vanti stöðugt fjölskyldumynstur séu sérstaklega viðkvæm fyrir uppreisn innan frá og sálfræðingar hafi sýnt fram á samhengi milli ójafnvægis milli fjölda karla og kvenna og glæpa og ofbeldis. Hún bendir á rannsóknir, sem sýni að skortur á konum sé ekki aðeins þjóðfélagslegt vandamál, heldur alþjóðlegt öryggisvandamál.

Síðan skrifar hún: "Í dag gætu margir af þessum ungu, óbundnu mönnum myndað feiknlegan hóp, sem er gróðrarstía fyrir loddara og þá, sem vilja byggja upp sértrúarsöfnuði, málaliðaflokka og hryðjuverkasamtök. Upprunalöndin myndu ekki aðeins finna fyrir afleiðingunum. Í bandarískum stjórnmálatímaritum er nú þegar farið að fjalla um mögulegar afleiðingar fyrir hið alþjóðlega valdajafnvægi."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.