Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Auður Eir Vilhjálmsdóttir fjallar um málfar: "Mismunun málsins sem við tölum hvern dag hefur haft gífurleg áhrif. Hún hefur viðhaldið forréttindum karla fram yfir konur."

Hvað er mál beggja kynja og hvers vegna notar Kvennakirkjan það og hvetur til þess að það sé notað í kirkjunni og öllu þjóðfélaginu?

Mál beggja kynja ávarpar bæði kynin og vísar til þeirra beggja í máli og texta sem fjallar um þau bæði. Það tekur ekki annað kynið fram yfir hitt. Þess vegna er til dæmis hægt að segja verið öll velkomin í stað þess að segja allir eru velkomnir. Í stað þess að biðja þess í kirkjubæn að allir þeir sem sjúkir eru fái bata er hægt að biðja þess að öll hin sjúku læknist. Þetta er stundum einfalt en getur líka orðið ögn snúið og þarfnast aðgátar og æfingar. Það er eðlilegt vegna þess að við erum að taka upp nýtt málfar í stað þess sem er rótgróið í huga okkar.

Hvers vegna þarf að taka upp mál beggja kynja? Einfaldlega vegna þess að það þarf að ávarpa og tala um bæði kynin ef í rauninni er verið að tala um þau bæði. Málfar mótar. Það mótar viðhorf til kynjanna að nota sem oftast orð um annað kynið þegar talað er um þau bæði. Málfar sem telur sjálfsagt að nefna ekki konur heldur fela þær í orðunum um karlana gerir upp á milli kynjanna. Þetta málfar er svo algengt og þykir svo sjálfsagt að fólk verður tíðum hvumsa þegar óskað er eftir breytingu til máls beggja kynja. Það verður afar augljóst í orðum um atvinnugreinar. Ráðherrar halda áfram að kallast ráðherrar þótt konur bætist í hópinn. Samt verða karlar hvorki hjúkrunarkonur, fóstrur né ljósmæður, heldur vefst það ekki fyrir þeim sem ráða málum að skipta um heiti á starfsheitum og skólum til þess að menn þurfi ekki að bera kvenheiti. Sjálfri þykir mér auðvelt að sjá mismununina.

Mismunun málsins sem við tölum hvern dag hefur haft gífurleg áhrif. Hún hefur viðhaldið forréttindum karla fram yfir konur. Við sjáum víðar í máli okkar að það þykir ekki hæfa að nefna menn með kvenkynsorðum á sama hátt og það þykir að nefna konur með karlkynsorðum. Það þykir gott mál að segja að Margrét sé drengur góður og sannur vinur, en óeðlilegt að segja að Magnús sé góð stúlka og sönn vinkona. Það þykir sjálfsagt að konur séu bræður en óhæfa að menn séu systur. Á fundum presta, þar sem bæði eru kvenprestar og karlprestar, er tíðum byrjað með því að segja, verið velkomnir kæru bræður. En það þykir ekki eðlilegt að segja á þessum fundum, verið velkomnar elsku systur.

Við í Kvennakirkjunni höldum því alls ekki fram að aldrei skuli notuð karlkynsnafnorð um konur. Við segjum heldur ekki að aldrei skuli nota kvenkynsorð um menn. Við andmælum því ekki að konur séu gestir, Íslendingar eða bifvélavirkjar eða að menn séu hetjur eða bjargvættir eða manneskjur. Við andmælum því hins vegar að nota karlkynsfornöfn um hópa þar sem bæði eru konur og menn. Við teljum að nota eigi mál beggja kynja með fornöfnum sem ávarpa eða vísa til beggja kynja. Þess vegna teljum við að ekki eigi að segja þeir heldur þau um hóp kvenna og manna.

Við höfum lagt að þjóðkirkjunni að taka upp mál beggja kynja í guðþjónustum og öllu starfi sínu og því hefur oft verið vel tekið. Við höfum gefið út bókina Vinkonur og vinir Jesú með völdum köflum úr Nýja testamentinu til að útskýra mál okkar. Sumu hefur verið breytt í handbók kirkjunnar og sumir prestar hafa á eigin spýtur breytt til máls beggja kynja í ritningarlestri, bænum og tali. Það er eitt af meginatriðum jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar að vinna að endurskoðun málfars í kirkjulegri boðun og starfi. Mál er ekki bara málfræði. Mál er guðfræði. Jesús sagði að konur og menn skyldu hafa hinn sama rétt og sýndi það með framkomu sinni og verkum. Kirkjunni ber að fylgja honum. Hún getur tekið að sér að vera til fyrirmyndar með því að nota mál beggja kynja.

Höfundur er prestur.