Árni Gunnarsson
Árni Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Gunnarsson og Margrét E. Jónsdóttir fjalla um ráðningu fréttastjóra RÚV: "Þeir sem reyna að kveða Margréti Indriðadóttur í kútinn grípa gjarnan til útúrsnúninga. Þannig fer fyrir útvarpsstjóra RÚV þegar hann svarar grein hennar um fagmennsku."
ÞAÐ FARA fáir í fötin hennar Margrétar Indriðadóttur þegar hún tekur sér penna í hönd. Þar fer saman rökfesta, yfirsýn og orðsnilld. "Öll þau 36 ár sem ég vann á fréttastofu útvarps leit ég svo á að ég væri í þjónustu almennings, hlustenda," sagði Margrét í ræðu sem hún flutti á Hvanneyri þegar henni voru afhent Nordfag-verðlaunin nokkrum árum eftir að hún lét af starfi. Þetta eru verðlaun norrænna ríkisútvarps- og sjónvarpsstöðva og Margrét fékk þau fyrir frábært framlag til fréttaflutnings í útvarpi. Þegar einn dómnefndarmanna stakk upp á Margréti Indriðadóttur voru allir hinir sammála um að enginn annar kæmi þá til greina.

Þeir sem reyna að kveða Margréti Indriðadóttur í kútinn grípa gjarnan til útúrsnúninga. Þannig fer fyrir útvarpsstjóra RÚV þegar hann svarar grein hennar um fagmennsku. (Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars, svarið daginn eftir.) Fréttastjóramálið nú og fréttastjóramálið gamla frá árinu 1968 er af gerólíkum toga. Nú er ráðinn fréttastjóri sem getur engan veginn talist fagmaður í fréttamennsku og gengið framhjá hópi umsækjenda sem allir eru fagmenn. Í fréttastjóramálinu gamla voru tveir umsækjendur, báðir fagmenn eins og Margrét Indriðadóttir, benti á. Ívar Guðmundsson var ráðinn og það gátu fréttamenn og aðrir samstarfsmenn hennar ekki sætt sig við þar sem þeir töldu hana hæfari. Þar með var ekki kastað neinni rýrð á Ívar Guðmundsson en hann hafði dvalist lengi erlendis og gat því ekki verið þaulkunnugur íslensku þjóðlífi eins og Margrét sem hafði starfað óslitið í blaða- og fréttamennsku, fyrst á Morgunblaðinu, síðan í nær tvo áratugi á útvarpinu, verið þar varafréttastjóri og gegnt fréttastjórastarfi eftir að Jón Magnússon féll frá.

Í ræðunni á Hvanneyri minntist Margrét fyrirrennara síns. "Ég var svo lánsöm að alast upp á fréttastofunni hjá Jóni Magnússyni, vammlausum heiðurs- og gáfumanni." Við skyndilegt fráfall Jóns var trúlega fyrsta hugsun margra að eftirmaður hans yrði vandfundinn. En við sem höfðum unnið með Margréti Indriðadóttur treystum henni til að feta í fótspor lærimeistarans og báðum hana um að sækja um starfið. Hún hafði sýnt og sannað að hún gat stjórnað fréttastofunni með prýði og einurð. "Ef þið hafið góða samvisku hafið þið ekkert að óttast," voru kjörorð hennar. Hún hafði líka frábært vald á íslensku máli og var ljúfur og kíminn kennari okkar nýgræðinganna en þá þótti sjálfsagt að fréttastjóri væri jafnframt málfarsráðunautur. Svo var það jafnréttisbaráttan. Var það út af því að Margrét var kona að gengið var framhjá henni við stöðuveitinguna? Það þótti mörgum stuðningsmönnum hennar af báðum kynjum. Löngu seinna, þegar Margrét hafði verið farsæll fréttastjóri í mörg ár, spurði kunningi eins fréttamanns af karlkyni hann að því hvort ekki væri óþægilegt að yfirmaðurinn væri kona. "Hún er besti yfirmaður sem ég hef haft," var svarið. Við erum mörg sem getum tekið undir þessi orð. Margrét hafði einstakt lag á fólki. Hún stjórnaði án þess að nokkur tæki eftir því að hún væri að stjórna. Hún sagði fólki til og leiðrétti vitleysur án þess að tala niður til nokkurs. Hún naut trausts, virðingar og væntumþykju undirmannanna sinna - hundrað prósent.

Áður fyrr voru fréttamenn ráðnir til reynslu áður en þeir gátu sótt um fast starf. En fyrir allmörgum árum var tekin upp sú regla að sá, sem sækir um starf á fréttastofunni, yrði að hafa staðist sérstakt fréttamannapróf og sýndi þannig fram á að hann væri gjaldgengur. Þeir sem þreytt hafa þetta próf hafa komið úr ýmsum áttum enda alltaf stefna fréttastjóranna á útvarpinu að fá menntað fólk á mörgum sviðum. Þar er hægt að ráða til starfa fólk sem hefur aldrei komið nálægt fréttamennsku en það verður að byrja á byrjunarreit í faginu og læra það. Hjúkrunarfræðingur er ekki ráðinn yfirmaður á lögfræðiskrifstofu og lögfræðingur er ekki gerður að hjúkrunarforstjóra. Báða væri hægt að ráða sem byrjendur í fréttamennsku stæðust þeir prófið en alls ekki í starf yfirmanns. Og eftir margra ára reynslu gætu þeir orðið prýðilegir fréttastjórar.

Ef Auðun Georg Ólafsson hefur áhuga á að vinna á fréttastofu útvarpsins ætti hann bara að drífa sig í næsta fréttamannapróf og ef hann stenst það getur hann sótt um starf næst þegar það verður auglýst. Honum yrði áreiðanlega vel tekið. Á fréttastofu útvarpsins er góður starfsandi og reyndir fréttamenn reiðubúnir að stíga í ístaðið með nýliðum.

Árni starfaði með Margréti Indriðadóttur í rúman áratug. Margrét starfaði með henni í 25 ár.