Séð yfir Hálsafellsá og skógræktarsvæðið í kring.
Séð yfir Hálsafellsá og skógræktarsvæðið í kring.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú eru verkefni félagsins orðin mun viðameiri en stofnfélagar gátu séð fyrir hjá Skógræktarfélagi AusturSkaftafellssýslu. Formaður þess er Elín S. Harðardóttir.

Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu var stofnað má segja út úr ungmennasambandinu Úlfljóti, ég er með hér fyrstu fundargerðina fyrir framan mig," segir Elín S. Harðardóttir sem er núverandi formaður Skógræktarfélags Austur-Skaftafellssýslu.

En hvað skyldi fundargerðarbókin upplýsa um stofndag félagsins?

"Það að haustið 1951 var stofnuð nefnd úr Úlfljóti til að undirbúa stofnun skógræktarfélags. Voru kosnir þrír menn úr hverjum hreppi til að stofna félagið og var það gert 14. apríl 1952," segir Elín.

Nú eru verkefni félagsins orðin mun viðameiri en stofnfélagarnir gátu séð fyrir sér.

"Þegar félagið eignaðist um 200 hektara úr landi Haukafells á Mýrum þá gjörbreyttist aðstaðan til starfsemi félagsins, þetta gerðist árið 1985. Allt fram til þess tíma fengu félagar að gróðursetja í sérstökum reitum sem hrepparnir úthlutuðu deildum úr félaginu til þess arna.

Í Haukafelli er komin góð aðstaða

Í Haukafelli er komin góð aðstaða, nýreist þjónustuhús sem stórbætir aðstöðu fyrir tjaldgesti og aðra sem koma í heimsókn. Í húsinu eru vatnssalerni. Tjaldstæðið er gamalt tún sem hefur verið gróðursett limgerði í kringum."

Hvað hafið þið gróðursett mikið af plöntum undanfarið?

"Í heildina hafa verið gróðursettar um 120 þúsund plöntur í Haukafelli, en undanfarin ár höfum við í félaginu þó einbeitt okkur fremur að því að bæta aðstöðu í Haukafelli, laga girðingar, grisja og koma upp þjónustuhúsinu fyrrnefnda, merkja gönguleiðir og útbúa upplýsingaskilti.

Aðsókn að svæðinu er að aukast, ekki síst koma margir erlendir gestir. Það er verið að stækka Skaftafellsþjóðgarðinn þannig að hann mun ná alveg yfir Vatnajökul að sunnanverðu og er því kominn í nágrenni við Haukafell. Við teljum að skógræktarsvæðið í Haukafelli geti orðið einn inngangur að Vatnajökulsþjóðgarði.

Gróðursett undanfarin ár við Drápskletta

Undanfarin ár höfum við aðallega verið að gróðursetja í landgræðsluskógasvæðið við Drápskletta sem er í nágrenni Hafnar í Hornafirði. Þar voru gróðursettar 3.300 plöntur á síðasta ári, þar af gróðursetti 6. bekkur Hafnarskóla 800 birkiplöntur úr Yrkjusjóði og aðstoðaði líka við áburðargjöf.

Áætlað er að gróðursetja 2.500 plöntur í vor í landgræðslusvæðið við Drápskletta og bera á eldri plöntur. Við vorum með jólatréssölu í Haukafelli og unglingar úr Heppuskóla voru staðgenglar jólasveina og kunnu börn sem mættu á svæðið vel að meta nærveru þeirra þegar fjölskyldan tók sér jólatré. Nýlega var haldið námskeið fyrir áhugafólk um trjáræktun, en þar voru hinir almennu garðeigendur og sumarbústaðaeigendur einkum hafðir í huga. Kennt var plöntuval fyrir þennan landshluta, jarðvegsvinna fyrir gróðursetningu og hvernig á að gróðursetja. Í félaginu okkar eru um fimmtíu manns, aðallega fólk sem búsett er á svæðinu.

Nú á dögum er mikið lagt upp úr því að fólk skapi sér heilbrigðan lífsstíl. Óhætt er að segja að skógrækt og útivera sé góð fyrir líkama og sál og einnig fjölskylduvænt sport."