12. maí 2005 | Íþróttir | 273 orð

Olga úr leik fram í ágúst

OLGA Færseth, markahæsta knattspyrnukona landsins fyrr og síðar, er með slitið liðband í hné og leikur ekkert með ÍBV fyrr en í fyrsta lagi í byrjun ágúst.
OLGA Færseth, markahæsta knattspyrnukona landsins fyrr og síðar, er með slitið liðband í hné og leikur ekkert með ÍBV fyrr en í fyrsta lagi í byrjun ágúst. Þetta er gífurlegt áfall fyrir bikarmeistarana, sem hafa misst sterka leikmenn fyrir Íslandsmótið sem hefst í næstu viku. ÍBV mætir þá ÍA á heimavelli, á þriðjudaginn kemur.

Þetta gerðist í leik gegn KR fyrir skömmu. Ég teygði mig í boltann, um leið og KR-ingur sem spyrnti í hann af krafti, og við það gaf liðbandið sig. Læknarnir segja að ég verði tvo mánuði að ná mér, sem þýðir að ég get farið að æfa uppúr miðjum júlí, og næ vonandi að byrja að spila þá um mánaðamótin. Þetta er að sjálfsögðu hundfúlt en maður verður að taka þessu. Ég hef svo sem lent í því verra, ég sleit krossband fyrir níu árum og var þá frá í heilt ár," sagði Olga við Morgunblaðið í gær.

Olga skoraði 20 mörk í 14 deildaleikjum með ÍBV í fyrra, auk þess sem hún lagði upp 13 til viðbótar, og hún hefur samtals skorað 228 mörk í 166 leikjum í efstu deild frá upphafi. Ef endurhæfingin gengur að óskum gæti hún byrjað að leika gegn Breiðabliki hinn 4. ágúst en þá á ÍBV jafnframt eftir að leika gegn Keflavík, Val og KR á lokasprettinum í úrvalsdeildinni.

ÍBV missti markadrottninguna ungu Margréti Láru Viðarsdóttur til Vals en hún gerði 23 mörk fyrir liðið í deildinni. Þá munu Karen Burke, Michelle Barr, Mhairi Gilmour, Mary McVeigh, Claire Johnstone og Samantha Britton ekki koma aftur til ÍBV í sumar, og ekki liggur fyrir ennþá hve margir erlendir leikmenn munu leysa þær af hólmi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.