Mynd 1. Austurhlið Snæfells og niðurstöður aldursgreininga, þar sem tvær efstu greiningarnar vísa jafnframt á sýnatökustaði og sú til hægri gefur til kynna aldur á upphafseldvirkni í Snæfelli (466 þúsund ár) í lágu felli handan fjallsins. Að austan og norðan hvílir Snæfell á plötu úr ísúru hraunlagi sem er greint 396 þúsund ára. Undir botnplötu Snæfells við Jökulsá er berglagastafli sem, samkvæmt segultímatali og eldri aldursgreiningum austur við Laugará, hlóðst upp fyrir tæplega tveimur milljónum ára.
Mynd 1. Austurhlið Snæfells og niðurstöður aldursgreininga, þar sem tvær efstu greiningarnar vísa jafnframt á sýnatökustaði og sú til hægri gefur til kynna aldur á upphafseldvirkni í Snæfelli (466 þúsund ár) í lágu felli handan fjallsins. Að austan og norðan hvílir Snæfell á plötu úr ísúru hraunlagi sem er greint 396 þúsund ára. Undir botnplötu Snæfells við Jökulsá er berglagastafli sem, samkvæmt segultímatali og eldri aldursgreiningum austur við Laugará, hlóðst upp fyrir tæplega tveimur milljónum ára.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ágúst Guðmundsson og Jóhann Helgason: "Því er afar ólíklegt að Kárahnjúkavirkjun stafi hætta af eldvirkni Snæfells eða Kárahnjúka næstu hundrað árin, þ.e. á líftíma virkjunarinnar."

VIÐ norðausturbrún Vatnajökuls rís Snæfell hæst í 1833 m. Umhverfi Snæfells er Eyjabakkar að austanverðu, heiðar Fljótsdals og Jökuldals í norðri en fyrir vestan, í um 15 km fjarlægð verður Hálslón, miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar. Litið hefur verið á Snæfell sem útjaðar á eldvirkni landsins á Austurlandi en menn hafa ekki verið á eitt sáttir hve mikil eldvirkni fylgir þessari stöð.

Þegar umræður um virkjanalón á Eyjabökkum fóru hæst undir síðustu aldamót urðu ýmsir til að vara við eldgosum úr Snæfelli og vísindamenn, sem hvað mest hafa skoðað Snæfell, leiddu líkur að því að fjallið væri virkt eldfjall og það hefði líklega gosið á nútíma, þ.e. fyrir minna en 10-12 þúsund árum (sbr. grein í tímaritinu Glettingi árið 1988 eftir Ármann Höskuldsson og Pál Imsland). Taka þeir þar djúpt í árinni um að Snæfell sé án efa virkt eldfjall.

Annar höfundur þessarar greinar (Ágúst Guðmundsson) ritaði síðar í sama tímarit umsögn um nefnda grein og taldi að kollur Snæfells væri myndaður á næstsíðasta jökulskeiði eða á jökulskeiðinu fyrir 140-230 þúsund árum en sagðist láta öðrum eftir að tjá sig um hvort Snæfell væri virkt eldfjall eða ekki. Þarna bar mikið á milli varðandi hugmyndir um aldur.

Sum mannvirki Kárahnjúkavirkjunar eru tiltölulega nálægt Snæfelli og því eðlilegt að spyrja hvort þeim stafi hugsanlega hætta af einhvers konar virkni í eldstöðinni? Oft er talað um að eldstöðvar séu virkar á sögulegum tíma, þ.e. að heimildir eru fyrir eldvirkni frá því eftir landnám fyrir um 1100 árum. Einnig liggur oft ljóst fyrir að eldstöð hafi gosið eða verið virk með öðrum hætti frá lokum síðasta jökulskeiðs, þ.e. fyrir um 10-12 þúsund árum. Slík eldvörp skilja gjarnan eftir sig ummerki eldgosa með öskulögum svo ekki fer á milli mála hver aldur og uppruni þeirra er. Líftími eldstöðva er hins vegar miklu lengri og jarðlög Austfjarða sýna t.d. að í Breiðdal getur að líta mikla eldstöð sem virk var í um 1 milljón ára með nær samfelldri upphleðslu hraunlaga. Er gjarnan talað um "megineldstöðvar" í þessu sambandi og er Krafla dæmi um virka megineldstöð. Undir miðju þeirra er kvikuhólf og yfir því gjarnan askja. Frá miðju þeirra gengur gjarnan sprungu- eða gangasveimur til norðurs og suðurs.

Spyrja má hvernig flokka beri Snæfell með tilliti til ofangreindra einkenna. Sigurður Þórarinsson, sem kannaði öskulög um allt land, var þeirrar skoðunar að Snæfell hefði ekki gosið frá lokum síðasta jökulskeiðs og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur tekur í sama streng. Þeir jarðvísindamenn, sem hvað mest hafa skoðað Snæfell (sjá tilvitnun að framan), hafa hins vegar látið þá skoðun í ljós að Snæfell sé án efa virkt eldfjall og að umræður um að svo sé ekki byggist á því sem næst forsendulausum ályktunum. Þeir benda jafnframt á unglega móbergshryggi í Snæfelli sem hljóti að vera frá síðasta jökulskeiði og hraunlög í kolli fjallsins að austanverðu séu frá lokum síðasta jökulskeiðs fyrir um 10.000 árum síðan og jafnvel yngri.

Greinarhöfundar hafa nú með fulltingi Landsvirkjunar látið aldursgreina bergsýni úr völdum jarðmyndunum í Snæfelli, þar á meðal þeim yngstu úr efsta hlutanum. Niðurstöður aldursgreininga eru í stuttu máli þær að aldur yngstu jarðmyndana í Snæfelli er um 200 þúsund ár. Aldursgreindu bergsýnin eru frá þrem stöðum í Snæfelli og sýna þau að fjallið hefur ekki rumskað frá því snemma á næstsíðasta jökulskeiði, sem nefnist Saal og var á tímabilinu fyrir 140-230 þúsund árum síðan (sjá mynd 2).

Fyrir liðlega tveimur árum var lagt í hliðstæða könnun á aldri yngsta gosbergs við Kárahnjúka. Fyrir lá að þeir höfðu myndast við gos undir jökli, á síðasta jökulskeiði fyrir 11.500 til 114.000 árum að því flestir töldu. Þetta þýddi breytt bil í tíma sem síðasta eldgos við Kárahnjúka gat hafa myndast á. Ekki var unnt að útiloka þann möguleika að Kárahnjúkar hefðu myndast fyrir um 12.000-20.000 árum síðan og þessu héldu vísindamenntaðir andstæðingar virkjunarinnar á lofti.

Aldursgreiningar sýndu hins vegar að Kárahnjúkar, ásamt nærliggjandi móbergshryggjum, urðu til við eldgos fyrir um 180.000 árum. Kárahnjúkar reyndust þannig mun eldri en vísindamenn töldu almennt. Eftir sem áður kann Snæfell að teljast virk eldstöð sem gjósi í framtíðinni. Á hinn bóginn hefur hvorki gætt eldvirkni við Kárahnjúka né Snæfell síðastliðin 180-200 þúsund ár. Því er afar ólíklegt að Kárahnjúkavirkjun stafi hætta af eldvirkni Snæfells eða Kárahnjúka næstu hundrað árin, þ.e. á líftíma virkjunarinnar.

Tilvitnanir:

Ármann Höskuldsson og Páll Imsland, Snæfell - Eldfjall á gosbelti framtíðarinnar, Glettingur, tímarit um austfirsk málefni, 8. árg.

2.-3. tbl., 1998.

Ágúst Guðmundsson, Á að telja

Snæfell virkt eldfjall?, Glettingur, tímarit um austfirsk málefni, 9. árg. 2. tbl., 1999.

Höfundar eru jarðfræðingar og hafa unnið við rannsóknir vegna Kárahnjúkavirkjunar.