Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir fjallar um batahorfur geðsjúkra: "Aðstandendur eru hluti nánasta umhverfis og þeirra hlutverk í bata eru því afar mikilvæg."

GEÐSJÚKIR sem náð hafa tökum á lífi sínu hafa flestir átt aðstandendur sem stutt hafa við bakið á þeim og aðstoðað þá við að halda lífsgæðum þrátt fyrir sjúkdóm. Aukin þekking og stuðningur við aðstandendur skilar sér því margfalt. Nú á tímum er mikill þrýstingur á að útskrifa skjólstæðinga sem fyrst en ekki er tekið tillit til þess álags sem fylgir því að vera með veikan einstakling heima. Það er ekki einangrað fyrirbæri þegar einn í fjölskyldunni veikist og dettur út úr hringiðu mannlífsins. Það hefur áhrif á alla fjölskylduna. Fjárhagur riðlast, samskiptin breytast, systkini geta orðið útundan eða gleymst og ný vandamál verða til. Tengsl milli hjóna geta rofnað og endað með skilnaði. Rannsókn, sem gerð var í Svíþjóð, sýndi að 60% aðalumönnunaraðila geðklofasjúklinga enduðu sjálfir sem sjúklingar síðar á lífsleiðinni. Stuðningsnet flestra er yfirleitt um 7-14 manns. Þegar fólk á við langvarandi sjúkdóma að stríða fækkar stuðningsaðilum. Ef einstaklingur á við langvinnan geðsjúkdóm að stríða bregst oft stuðningsnetið og oftast er aðeins móðirin eftir.

Rannsóknir hafa sýnt að viðhorf og tilfinningaleg viðbrögð aðstandenda hafa áhrif á bataferlið eftir að skjólstæðingar útskrifast af geðdeildum. Ef andrúmsloftið er fjandsamlegt eða hlaðið spennu, eykur það streitu. Góð aðlögunarhæfni og streitustjórnun er hluti þess útbúnaðar sem geðsjúka skortir. Því er mikilvægt að leita allra leiða til að þeir fái tækifæri til að sýna getu sína. Aðstandendur eru í lykilhlutverki við að aðlaga umhverfið, gera það einfaldara, skipulagðara og skýrara. Aðstandendur þurfa fræðslu, stuðning og hvatningu til að geta nýtt þessa sérþekkingu sína.

Bráðainnlögn á alltaf að vera lokaúrræði. Aukinni færni, sjálfsvirðingu og sjálfstrausti verður ekki komið í betra horf á þeim skamma tíma sem bráðainnlögnin varir. Ef vinna á fyrirbyggjandi starf þarf að efla úrræði sem taka fyrr á vanda fólks; þegar fólk byrjar að einangra sig og detta út úr vinnu eða skóla. Eftirfylgni þarf að vera úti í samfélaginu sjálfu þar sem markmiðið er virkni og þátttaka sem miðar að því að ná aftur fyrri hlutverkum eða skapa ný til að byggja upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu.

Líf þess sem haldinn er geðsýki er, á sama hátt og þeirra sem ekki þjást, stöðug togstreita eigin þarfa og þarfa umhverfisins. Það eru alltaf einhverjar hindranir sem koma í veg fyrir að við náum að fullnægja þörfum okkar. Við verðum að hliðra til með eigin kröfur, taka tillit til annarra, gera samning innra með okkur og setja okkur skammtíma- og langtímamarkmið til að uppfylla drauma okkar. Við erum oftast með útbúnað í lagi sem hjálpar okkur við þetta. Streitustjórnun og varnarhættir eru t.d. bráðnauðsynlegur útbúnaður til að viðhalda sjálfstrausti og sjálfsvirðingu, án þeirra yrði lífið óbærilegt. Auka þarf fjölbreytni í þjónustu og bjóða upp á nálganir sem grípa fyrr inn í, og miðast að því að finna styrkleika og ný tækifæri bæði í einstaklingnum og í umhverfinu sjálfu. Í slíka vinnu þarf fjölbreytilega starfskrafta, sem setja sér það markmið að ryðja úr vegi hindrunum með sama dugnaði og metnaðarfullir ungir athafnamenn hasla sér völl. Lífið sjálft er í samfélaginu þar sem við búum, vinnum, lærum og sinnum okkar hlutverkum. Geðsjúkir og fleiri hópar með skerta færni þurfa aðstoð á vettvangi. Aðstandendur eru hluti nánasta umhverfis og þeirra hlutverk í bata eru því afar mikilvæg. Þjónustan við geðsjúka í samfélaginu verður aldrei byggð upp af neinu viti nema með þátttöku aðstandenda og notenda sem hafa reynslu af þjónustunni. Vinir, kunningjar, samstarfsmenn og ættingjar eru hluti af stuðningsneti sem hefur áhrif á heilsu og einn þáttur aðstoðarinnar er að virkja stuðningsnetin.

Heilsugæslan ætti að vera vettvangur nýsköpunar. Örlítill vísir að þverfaglegri nálgun innan heilsugæslunnar hefur orðið upp á síðkastið og því ber virkilega að fagna. Heilsugæslan er vettvangur þar sem á að vera hægt að grípa strax inn í ef fólk er á leiðinni að detta út úr vinnu eða skóla. Hún er líka vettvangur fyrir fyrirbyggjandi vinnu, eftirfylgni, fjölskyldustarf og notendaáhrif. Innan heilsugæslunnar verða þó engar breytingar sem máli skipta á næstu áratugum ef menn treysta sér ekki til að skoða stjórnfyrirkomulag og hugmyndafræði hennar. Það skilar sér ekki í þjónustunni ef þverfagleg sýn og notendasýn er aðeins stunduð neðst í valdapíramídanum. Hugmyndafræðin þarf að speglast frá ákvarðanatöku á stjórnsýslustigi niður á vettvang. Ég fagna umræðunni um heilbrigðismál sem verið hefur síðustu misseri. Stjórnmálamenn myndu taka minni áhættu ef þeir veðjuðu ekki öllu fjármagninu á sömu úrlausnirnar í mismunandi pakkningum. Mín von og trú er að innan ráðuneytanna finnist konur og karlar sem hafa kjark og þor til að brjótast úr viðjum vanans í stefnu heilbrigðismála.

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við HA.