Hilmar J. Malmquist
Hilmar J. Malmquist
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eva G. Þorvaldsdóttir og Hilmar J. Malmquist skrifa í tilefni af degi villtra blóma, sem er í dag: "SUNNUDAGINN 19. júní nk. verður dagur hinna villtu blóma haldinn hátíðlegur hér á landi líkt og gert er á öðrum Norðurlöndum. Boðið verður til blómaskoðunar vítt og breitt um landið á 18 stöðum undir leiðsögn plöntufróðra manna. Flóruvinir (www."
SUNNUDAGINN 19. júní nk. verður dagur hinna villtu blóma haldinn hátíðlegur hér á landi líkt og gert er á öðrum Norðurlöndum. Boðið verður til blómaskoðunar vítt og breitt um landið á 18 stöðum undir leiðsögn plöntufróðra manna. Flóruvinir (www.floraislands.is/florvin.htm) eru hvatamenn að þessum degi hér á landi, en á flestum hinna Norðurlandanna eru það grasafræðifélög landanna sem skipuleggja daginn með stuðningi frá Norðurlandaráði. Danir hafa lengsta hefð fyrir skipulagningu þessa dags eða frá árinu 1988. Fyrsti dagur villtra blóma hér á landi var haldinn í fyrra.

Á höfuðborgarsvæðinu er boðið upp á plöntuskoðun í Laugarási í Reykjavík og Borgarholti í Kópavogi. Að því loknu er tekið á móti fólki í Grasagarði Reykjavíkur til þess að skoða villtar íslenskar plöntur sem þar eru varðveittar.

Laugarás

Í Laugarási er mætt kl. 13:00 við Áskirkju. Þar mun Eva G. Þorvaldsdóttir grasafræðingur og forstöðumaður Grasagarðsins í Reykajvík, taka á móti þátttakendum. Laugarás er friðlýstur vegna fornra ummerkja um hærri sjávarstöðu. Undir lok ísaldar var Laugarásinn sker og sjór stóð þá 43 metrum hærra en nú.

Gróður í Laugarási er að hluta til náttúrulegur en þar má finna margar einkennistegundir holta og bersvæða svo sem blóðberg, geldingahnapp, grasvíði og þjóðarblómið holtasóley. Stór hluti af svæðinu er vaxinn birki en með tilkomu þess hefur melagróðurinn hörfað fyrir grösum. Grasflekkirnir eru að mestu vaxnir íslenskum grösum en einnig slæðast inn erlendar grastegundir. Margar blómfagrar blómplöntur vaxa í grasinu svo sem gullmura, jakobsfífill og krossmaðra. Alaskalúpína hefur dreift sér um holtið og er afar áberandi.

Borgarholt

Í Borgarholti í Kópavogi er mætt við Kópavogskirkju kl. 13. Þar verða leiðbeinendur Kristbjörn Egilsson grasafræðingur og Guðmundur Guðjónsson landfræðingur, báðir frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í Borgarholti er að finna óspillt gróðurlendi og gott úrval af villtum íslenskum blómplöntum. Þetta er allsérstakt vegna þess að um er að ræða stað nánast í miðju þéttbýli. Fá höfuðborgarsvæði geta státað af slíkum náttúrulegum svæðum. Borgarholtið er auk þess friðlýst sem náttúruvætti vegna ísaldarminja, en þar gefur að líta hvað gleggstu minjar á höfuðborgarsvæðinu um hæstu sjávarstöðu á Suðvesturlandi frá lokum ísaldar. Hin forna sjávarstaða sést við neðri mörk grágrýtishnullunganna á holtinu.

Nýleg rannsókn sem Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrufræðistofa Kópavogs stóðu að leiddi í ljós að í Borgarholti þrífast um 115 tegundir af háplöntum, en það er um fjórðungur af íslensku blómaflórunni. Ein plantan, blátoppa, er fágæt á landsvísu og skráð á válista. Þá hafa fundist liðlega 90 mosategundir í holtinu, þar af tvær sem eru fágætar hér á landi, hnyðrumosi og gjótustubbur. Stærstur hluti holtsins er vaxinn lyngmóa og birkikjarr er útbreitt. Graslendi, mýrlendi og deiglendi finnast einnig. Allt eru þetta gróðurfélög sem hafa hátt verndargildi inni í miðri byggð þar sem þau eru tiltölulega náttúruleg og villt. Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa gróðurlendin og tegundafjölbreytni mosa og háplantna í Borgarholti hátt verndar- og fræðslugildi á svæðisvísu.

Borgarholtið var í upphafi friðað vegna sérstæðra jarðmyndana en einnig er full ástæða til að gefa gaum að hinum villta gróðri og huga að verndun hans. Víða hylur birki þær jarðmyndanir sem eru friðaðar á holtinu, en birki var á sínum tíma plantað í jaðri holtsins og einnig hefur það sáð sér úr nærliggjandi görðum. Ef heldur fram sem horfir þá er þess ekki langt að bíða að á holtinu verði einn samfelldur birkiskógur. Yfirvöld og bæjarbúar í Kópavogi verða því fljótlega að gera upp við sig hvort og þá helst hvernig best er að bregðast við trjávextinum og takmarka hann.

Grasagarður Reykjavíkur

Að lokinni plöntuskoðun í Laugarási og Borgarholti verður tekið á móti fólki í Grasagarðinum í Laugardal, í safndeildinni Flóru Íslands. Eins og í öllum grasagörðum eru merkispjöld við hverja plöntutegund þar sem fram kemur íslenskt og latneskt nafn hennar. Í þetta skipti verður búið að fjarlægja merkispjöldin og fólk fær að spreyta sig á því að merkja þær tegundir sem það lærði að þekkja fyrr um daginn. Að lokum er boðið upp á te af íslenskum villtum jurtum.

Flóra Íslands var stækkuð í fyrra, meira rými er fyrir hverja tegund og einnig gefst tækifæri að búa til fjölbreyttari búsvæði fyrir plöntur. Varðveittar eru um 380 tegundir af 480 blómplöntum og byrkningum á Íslandi. Margar fágætar tegundir eru í varðveislu svo sem fjallategundir og tegundir sem eingöngu vaxa við hveri á Íslandi.

Þátttaka í plöntuskoðun á degi hinna villtu blóma kostar ekkert og ekki þarf að tilkynna hana fyrir fram, aðeins að mæta á réttum stað og tíma. Þetta er upplagt tækifæri fyrir alla fjölskylduna, unga sem aldna, að læra að þekkja villt blóm sem vaxa í kring um okkur. Markmiðið með plöntuskoðuninni er öðrum þræði að vekja áhuga almennings á plöntum og verndun þeirra. Nánari upplýsingar um staði og tíma þar sem boðið verður upp á plöntuskoðun annars staðar á landinu má finna á www.floraislands.is/blomadagur.htm

Eva er forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur. Hilmar er forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs (www.natkop.is).