Sérstök athöfn var haldin í Hólavallakirkjugarði í gær til að minnast forustukvenna í kvenréttindabaráttunni í upphafi liðinnar aldar og voru blómsveigar lagðir á leiði þeirra.
Sérstök athöfn var haldin í Hólavallakirkjugarði í gær til að minnast forustukvenna í kvenréttindabaráttunni í upphafi liðinnar aldar og voru blómsveigar lagðir á leiði þeirra. — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Örnu Schram arna@mbl.is NÍUTÍU ár eru í dag liðin frá því að konur, sem náð höfðu fertugsaldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Tímamótanna verður minnst á Þingvöllum í dag með sérstakri hátíðar- og baráttudagskrá.
Eftir Örnu Schram arna@mbl.is
NÍUTÍU ár eru í dag liðin frá því að konur, sem náð höfðu fertugsaldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Tímamótanna verður minnst á Þingvöllum í dag með sérstakri hátíðar- og baráttudagskrá. Níu stofnanir og samtök kvenna, sem standa að hátíðarhöldunum, hvetja konur til að skunda á Þingvöll. Stefnt er að því að afhenda Árna Magnússyni, ráðherra jafnréttismála, kröfugerð um réttindi kvenna.

Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að þjóðfélagið allt, bæði konur og karlar, þurfi að standa saman að því að varðveita það jafnrétti sem fengist hefur og koma því á þar sem það er ekki í nægilega góðu horfi. Hún segir að konur, sem berjist fyrir jafnrétti, þurfi að beina röksemdum sínum að karlmönnunum. "Konur hafa oft á tíðum alltof mikið verið að tala hver við aðra og sannfæra hver aðra í stað þess að beina röksemdum sínum að karlmönnunum. Það voru þeir sem réðu öllu til lands og sjávar. Menn láta ekki stjórnartaumana af hendi nema þeir séu sannfærðir um að það sé skynsamlegt."

Ingibjörg H. Bjarnason var kjörin á þing fyrst kvenna árið 1922 og fyrsti kvenráðherrann, Auður Auðuns, var skipuð í embætti árið 1970. Kosningaþátttaka kvenna var rúmlega þrjátíu prósent árið 1916 eða í fyrstu þingkosningunum eftir að konur öðluðust kosningarétt, skv. upplýsingum frá dr. Auði Styrkársdóttur stjórnmálafræðingi. Kosningaþátttakan hefur vaxið jafnt og þétt síðan þá og í þremur síðustu alþingiskosningum hefur kosningaþátttaka kvenna verið örlítið hærri en kosningaþátttaka karla. Kosningaþátttaka kvenna var 88,3% árið 2003 en kosningaþátttaka karla var 87,2%.

Forystukvenna í kvennahreyfingunni var minnst með sérstakri athöfn í Hólavallakirkjugarði í Reykjavík í gærmorgun. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri flutti ávarp og blóm voru lögð á legstaði forystukvenna í kvenréttindamálum.

Í Morgunblaðinu í dag er saga kosningaréttar og kjörgengis kvenna rifjuð upp og rætt við stjórnmálakonur og -menn um stöðu kvenna í stjórnmálum nú á tímum.