Jón Kristinsson við líkan af nýja tækinu sem notað er til mælinga.
Jón Kristinsson við líkan af nýja tækinu sem notað er til mælinga. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is JÓN Kristinsson, verkfræðingur og fyrrverandi prófessor við verkfræðiháskólann í Delft í Hollandi, hefur ásamt hollenskum verkfræðingi þróað nýja tækni sem sögð er muni gjörbeyta bæði loftræstingu og upphitun í húsum.
Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is
JÓN Kristinsson, verkfræðingur og fyrrverandi prófessor við verkfræðiháskólann í Delft í Hollandi, hefur ásamt hollenskum verkfræðingi þróað nýja tækni sem sögð er muni gjörbeyta bæði loftræstingu og upphitun í húsum. Þeir hönnuðu nýja tegund af varmaskipti, sem að sögn Jóns er sá besti í heiminum, og er hann notaður í nýjan loftræstibúnað. Nýja tæknin kallast "andandi gluggi", en Jón, sem er búsettur í Hollandi, er staddur hérlendis til að kynna uppfinninguna fyrir fagmönnum.

Notaði verðlaunafé til að þróa hugmyndina

Jón hafði lengi gengið með hugmyndina í maganum en hlaut árið 1998 fyrstur manna hin Konunglegu Shell-verðlaun í Hollandi, og notaði hann verðlaunaféð til þróunar hugmyndarinnar. Nýja varmaskiptatækið er hið eina í heiminum sem ekki frýs og því er hægt að nota kerfi Jóns jafnt í köldu sem heitu loftslagi. Með nýju lausninni er ekki þörf fyrir neinar leiðslur og því sparast um fimmtán prósent af hæð húsa og byggingakostnaður lækkar að minnsta kosti um tíu prósent. Þetta er hreinlegra en kerfi sem fyrir eru og hefur betri nýtni, auk þess sem það sparar orku. Jón segir að í vel einangruðum húsum sparist um 35% af orku.

Nýtist hvar sem er

Lausn Jóns má nota hvar sem er, enda er tækið mun minna en fyrirrennararnir. Þannig getur þetta t.d. nýst í sumarbústöðum, bátum og jafnvel tjöldum. "Þetta er algerlega ný lausn fyrir íbúðarhúsnæði, jafnt sem skrifstofubyggingar. Þá hentar þetta sérlega vel á sjúkrahúsum þar sem engar leiðslur þarf til. Þetta er langheilsusamlegasta lausnin, því með þessu hefur hvert herbergi sína loftræstingu og koma má í veg fyrir smithættu. Varmaskiptinn má þvo í þvottavél eða uppþvottavél og því má til dæmis skipta um hann þegar skipt er um sjúklinga á herbergjum sjúkrahúsa."

Nýja tækinu er ýmist komið fyrir í veggjum eða gluggastólpum og yfirleitt er eitt í hverju herbergi. Tækið mælir koltvísýring í lofti og varar við þegar loftið er ekki gott. Jón segir að tækið komi á markað eftir rúmt ár. "Ég er búinn að lofa fyrstu hundrað tækjunum í lok ársins. Þetta verður komið á markað hérna eftir tvö ár."